Klinkið

Guðmundur í Afstöðu öflugastur að smala

Ritstjórn Innherja skrifar
Guðmundur Ingi Þóroddsson hefur sannarlega látið til sín taka undanfarna daga til að tryggja sér atkvæði í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík sem fram fer um næstu helgi.
Guðmundur Ingi Þóroddsson hefur sannarlega látið til sín taka undanfarna daga til að tryggja sér atkvæði í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík sem fram fer um næstu helgi.

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu og frambjóðandi í þriðja sæti Samfylkingarinnar í borginni, er sagður eiga hlutfallslega flestar nýskráningar í flokkinn og skráða stuðningsmenn fyrir prófkjör flokksins sem fram fer um næstu helgi.

Nýskráninganna aflaði hann í bandalagi við annan frambjóðanda, Guðnýju Riba, sem býður sig fram í fjórða sæti á sama lista. 

Þeir sem Innherji ræddi við og þekkja til innan flokksins rekur ekki minni til þess að fólk hafi áður staðið sameiginlega að smölun með þessum hætti, en Guðmundur og Guðný sendu meðal annars út sameiginleg sms-skilaboð þar sem þau hvöttu fólk til að skrá sig og öðlast þannig þátttökurétt í prófkjörinu.

Yfir 1500 nýliðar tryggðu sér þannig kosningarétt í prófkjörinu áður en kjörskráin lokaði fyrir nýskráningar. Þetta þýðir að um fjórðungur þeirra sem hafa kosningarétt í prófkjörinu sem fram fer næstu helgi tóku ekki þátt síðast.

Guðmundur Ingi býður sig fram gegn sitjandi borgarfulltrúunum Skúla Helgasyni og Hjálmari Sveinssyni sem allir bítast um þriðja sæti á lista flokksins í Reykjavík. Borgarfulltrúinn Sabine Leskopf býður sig einnig fram í þriðja til fjórða sæti.

Afstaða er félag fanga og annarra áhugamanna um fangelsismál og betrun, en Guðmundur Ingi hefur verið ötull talsmaður málefnisins um árabil.

Líklegt þykir að félagar Guðmundar muni taka skýra afstöðu með sínum manni í prófkjörinu um helgina.

Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.






×