Enski boltinn

Tottenham vill halda Super Bowl á heimavelli sínum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tottenham-mennirnir Eric Dier og Harry Kane eru miklir NFL-áhugamenn.
Tottenham-mennirnir Eric Dier og Harry Kane eru miklir NFL-áhugamenn. getty/Tottenham Hotspur FC

Enska úrvalsdeildarliðið Tottenham ætlar að sækja um að halda Ofurskálina, úrslitaleik NFL-deildarinnar, á heimavelli sínum 2026.

Tottenham vill verða fyrst allra til að halda þennan risaviðburð utan Bandaríkjanna og freistar þess að fá hann eftir fjögur ár.

Spurs er þegar með langtíma samning við NFL um að halda tvo leiki í deildarkeppninni á hverju tímabili á heimavelli sínum. En forráðamenn Tottenham vilja meira og fá sjálfa Ofurskálina til London.

Búið er að ákveða hvar Ofurskálin verður haldin til 2025 en NFL íhugar að halda hana utan Bandaríkjanna 2026.

Í gær tilkynnti NFL að nokkrir leikir á næsta tímabili verði haldnir utan Bandaríkjanna. Tveir verða í Þýskalandi, annar þeirra á heimavelli Bayern München, tveir á heimavelli Tottenham og einn á Wembley.

Heimavöllur Tottenham, sem kostaði um einn milljarð punda, var opnaður fyrir þremur árum. Hann er hannaður til að geta haldið leiki í NFL og fyrsti slíki völlurinn utan Bandaríkjanna.

Ofurskálin fer fram í Kaliforníu á sunnudaginn. Þar mætast Los Angeles Rams og Cincinnati Bengals.


NFL er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NFL er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði. Beinar útsendingar frá öllum leikjum eru á NFL Game Pass sem hægt er að kaupa sem á 2.990 krónur á mánuði fyrir núverandi áskrifendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×