Viðskiptaráðherra lýsti þeirri skoðun sinni á dögunum að viðskiptabankarnir ættu að láta heimilin í landinu njóta mikils hagnaðar þeirra á síðasta ári upp á samanlagt 81 milljarð króna.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir alveg ljóst að bankarnir þurfi að hafa hagsmuni almennings að leiðarljósi eins og Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra væri í raun að segja.
„Þegar við lítum á stöðu bankanna eru þeir auðvitað að skila miklum arði núna. Þá liggur það fyrir að Landsbankinn er að fullu í ríkiseigu. Íslandsbanki er í meirihluta eigu ríkisins. Það mun auðvitað gagnast ríkinu að fá veglegar arðgreiðslur sem verður hægt að nýta til mikilvægra félagslegra aðgerða til að byggja hér upp að loknum faraldri,“ segir Katrín.
Stýrivextir væru ákveðið tæki peningastefnunnar sem ætlað væri að hafa tiltekin áhrif.
„En hins vegar tel ég mikilvægt að bankarnir sýni viðskiptamönnum sínum, þá er ég að tala um almenning í landinu, ákveðið svigrúm þegar kemur í raun og veru að því að vinna úr afleiðingum faraldursins. Þar eru aðstæður fólks mismunandi. Sérstaklega þeirra sem hafa misst atvinnu og þar með tekjur og eiga þar af leiðandi í erfiðleikum,“ segir forsætisráðherra.
Bjarni Beneditksson fjármála- og efnahagsráðherra tekur í sama streng og Katrín.
„Það kannski reyndi helst á það þegar atvinnuleysi fór í hæstu hæðir. Þá gaf Seðlabankinn súrefni inn í fjármálakerfið. Sem tryggði það til dæmis að bankarnir gátu veitt greiðslufresti, gert skilmálabreytingar án þess að það væri sérstaklega íþyngjandi fyrir fjármálafyrirtækin. Þetta hefur heppanst mjög vel. Þess vegna er þessi góða staða heimilanna í dag,“ segir Bjarni.
Kaupmátur þeirra hafi aukist og eignastaðan vaxið. Vanskil heimilanna í bankakerfinu væru í algeru lágmarki og bankarnir sjái vaxandi innlán frá heimilunum.
„Við getum ekki nálgast umræðu um þessi mál á þessum tímapunkti vegna þessarar nýjustu vaxtahækkunar með þeim hætti að nú sé komið upp eitthvað krísuástand hjá heimilunum. Það er ekki staðan. Ekki samkvæmt neinum mælingum,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.