Frítíminn

Dagur í lífi Helgu Völu: Fjölskyldukona og forfallinn körfuboltaunnandi

Ritstjórn Innherja skrifar
Helga Vala Helgadóttir segir starfið í þinginu snúast um fólk.
Helga Vala Helgadóttir segir starfið í þinginu snúast um fólk.

Helga Vala Helgadóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar elskar að vera í kringum fólk en er líka dálítið prívat að eigin sögn. Hún er mikil fjölskyldukona og finnst starf sitt einstaklega skemmtilegt. Hún segir körfuboltann vera drottningu íþróttanna og hraður leikurinn henti hennar öra eðli einkar vel.

6.00 – 7.30 Vakna og reyni að mjaka mér í ræktina að minnsta kosti þrisvar í viku, en verð að viðurkenna að það sem af er ári hefur mér tekist að láta faraldur og óveður vera góða afsökun fyrir því að liggja á koddanum, spjalla við Grím og renna yfir miðlana.

Hjónin Grímur Atlason og Helga Vala láta sig dreyma um frí í sólinni um þessar mundir.

9.00 Nefndarfundir. Þessa dagana sit ég í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis með skrautlegum hópi fólks og það er, hvort sem lesendur trúa því eða ekki, mjög skemmtilegt og fræðandi. Erum loksins komin aftur á staðfund og þá finnur maður hvað það er mikilvægt að hitta fólk, spjalla við kaffivélina og rökræða yfir borðið en ekki netið. Það skemmtilegasta við starf þingmannsins, fyrir utan að fá að hitta allskonar fólk, er að læra alla skapaða hluti um samfélagið allt. 

Helga Vala, ásamt formanni Samfylkingarinnar Loga Einarssyni og barnabarni sínu.

Ég hef verið einstaklega heppin frá því ég settist á þing fyrir rúmum fjórum árum enda verkefnin mörg og flest mjög áhugaverð. Þessi borgaraþjónusta að gegna þingstarfi er auðvitað allskonar en hafi maður almennt áhuga á fólki og samfélaginu þá eru allir dagar skemmtilegir í vinnunni.

Erum loksins komin aftur á staðfund og þá finnur maður hvað það er mikilvægt að hitta fólk, spjalla við kaffivélina og rökræða yfir borðið en ekki netið.

10.30, 13.30 eða 15.00 hefjast þingfundir, en áður en það gerist eru þingflokksfundir tvisvar í viku og fundir í öðrum nefndum eða með allskonar hópum yfir daginn. Þingfundir eru í býsna föstum skorðum og er dagskrá með þeim hætti að þrjá daga vikunnar mega þingfundir standa til kl. 20 en á þriðjudögum má funda til miðnættis.

Þetta er ekkert sérstaklega fjölskylduvænn vinnustaður, en álagið er mismikið eftir tímabilum og stundum nær maður að fara heim og elda mat og vera ögn skemmtilegur við fjölskylduna en oftar en ekki lengjast dagarnir með frekari fundum, endalausum símtölum og skipulagningu með hinum stjórnarandstöðuflokkunum á þingi. Það er gott samstarf á milli þessara flokka og ég hlakka til áframhaldandi samstarfs.

Pólítíkin er hálfgert fjölskyldusport. Hér eru Helga Vala og Skúli Helgabörn á góðri stundu, en Skúli tekur um þessar mundir þátt í flokksvali Samfylkingarinnar þar sem hann sækist eftir þriðja sætinu á lista flokksins í borginni.

Kvöldin þessa síðustu daga hafa verið nýtt að hluta til við að hjálpa Skúla bróður mínum í flokksvali Samfylkingarinnar sem fram fer í gær og í dag. Skúli er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, hefur verið formaður skóla- og frístundasviðs og því hefur mætt mikið á honum í þessum faraldri sem verið hefur síðustu tvö ár. Það er gaman að hjálpa til þó að ég væri alveg til í að hafa meiri tíma til þess. 

Stundum nær maður að fara heim og elda mat og vera ögn skemmtilegur við fjölskylduna en oftar en ekki lengjast dagarnir með frekari fundum, endalausum símtölum og skipulagningu með hinum stjórnarandstöðuflokkunum

En hann er með duglegri og samviskusamari stjórnmálamönnum sem við eigum og ég á mjög auðvelt með að hringja í flokksfólk og hvetja það til að kjósa Skúla í 3. sætið.

Á kvöldin er mjög oft körfuboltastund. Tvö barna minna keppa með meistaraflokkum Vals og Vestra og ég reyni að horfa á alla leiki hjá þeim enda er þetta mjög hreinsandi fyrir hugann og bara gott að stinga sér út úr pólitíkinni yfir í að hvetja, hrópa, púa og fagna, selja miða, setja upp stúkuna og ganga frá eftir leiki. Já, að vera körfuboltaunnandi verður að lífsstíl eins og svo margt annað í mínu lífi. Körfuboltinn er auðvitað drottning íþróttanna og leikurinn hraður sem hentar vel mínu öra eðli.

Kvöldin snúast að miklu leyti um körfubolta á heimili þeirra Gríms og Helgu Völu.

Þegar ekki er körfubolti eða þingfundur frameftir kvöldi þá nýt ég þess í botn að elda góðan mat, hitta börnin öll og barnabörnin og knúsa Grím og köttinn Júrí.

Já, að vera körfuboltaunnandi verður að lífsstíl eins og svo margt annað í mínu lífi. Körfuboltinn er auðvitað drottning íþróttanna og leikurinn hraður sem hentar vel mínu öra eðli.

Ég er ofsalega mikil fjölskyldukona, alveg svona ítölsk og elska að hafa margt fólk í kringum mig á sama tíma og ég er líka frekar prívat. Þessa dagana látum við okkur svo dreyma um suðræn höf og sól í andlit. Vonandi næst það á árinu.






×