Innherji

Útboð og skráning Íslandsbanka kostaði ríkissjóð yfir 1.700 milljónir

Hörður Ægisson skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur fallist á tillögu Bankasýslunnar að halda áfram frekari sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur fallist á tillögu Bankasýslunnar að halda áfram frekari sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka. VÍSIR/VILHELM

Beinn kostnaður íslenska ríkisins við skráningu og hlutafjárútboð Íslandsbanka um mitt síðasta ár nam 1.704 milljónum króna, að stærstum hluta vegna söluþóknunar til fjölda erlendra og íslenskra ráðgjafa. Kostnaðurinn jafngilti um 3,1 prósenti af söluandvirðinu en ríkið seldi 35 prósenta hlut í bankanum fyrir rúmlega 55 milljarða króna.

Frá þessu er greint í skýrslu Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka sem var lögð fyrir Alþingi síðastliðinn fimmtudag. Kostnaðurinn var lítillega hærri en áætlanir Bankasýslunnar, sem heldur utan um hluti ríkisins í bankanum, gerðu ráð en það kemur einkum til vegna góðrar niðurstöðu útboðsins þar sem hærra verð hafi fengist fyrir eignarhlutinn en var fyrst reiknað með.

Í skýrslunni segir að stærsti einstaki kostnaðarliðurinn hafi verið söluþóknun til söluráðgjafa, sem nam 2,5 prósentum af þeirri fjárhæð sem var seld í útboðinu, eða samtals 1.382 milljónir króna. Sú þóknun samanstóð af annars vegar grunnþóknun, sem var 1,5 prósent af útboðsvirði, og hins vegar valkvæðri þóknun sem nam allt að 1 prósent af útboðsvirði.

Bankasýslan segist hafa ákveðið að greiða valkvæða þóknun að fullu í ljósi „góðrar niðurstöðu útboðsins, ekki síst hvað varðar fjölda og stærð tilboða,“ að því er segir í skýrslunni. Áætlun Bankasýslunnar gerði ráð fyrir að 35 prósenta hlutur yrði seldur á verði sem jafngilti 80 prósent af eigin fé Íslandsbanka en útboðsgengið reyndist hærra, eða sem nam 86 prósent af eigin fé bankans, og það þýddi að söluþóknun til ráðgjafa var hærri fyrir vikið.

Annar kostnaður var samtals tæplega 322 milljónir króna, sem var um 10 prósent umfram áætlanir Bankasýslunnar, og munaði þar mestu um að uppgjörsgjald var mun hærra en gengur og gerist í frumútboðum vegna fjölda áskrifenda sem hlutu úthlutun. Samtals tóku 24 þúsund fjárfestar þátt í útboði Íslandsbanka en þeim hefur hins vegar fækkað um liðlega þriðjung frá þeim tíma og voru hluthafar bankans tæplega 16 þúsund talsins í árslok 2021.

Í skýrslu ráðherra segir að í samræmi við viðteknar venjur við frumútboð af þessari stærð og gerð – útboð Íslandsbanka var hið stærsta sem hefur verið haldið hér á landi – samanstóð kostnaður ríkissjóðs af þóknunum til söluráðgjafa, þóknun fjármálaráðgjafa, endurgreiðslu á erlendum og innlendum lögmannskostnaði seljenda og útgefanda. Þá var um að ræða endurgreiðslu til söluráðgjafa á útlögðum kostnaði þeirra vegna útboðsins og svo virðisaukaskatti.

Mikill fjöldi erlendra og íslenskra fyrirtækja komu að söluferlinu sem ráðgjafar. Bankasýslan réð STJ Advisors sem sjálfstæðan fjármálaráðgjafa vegna hlutafjárútboðsins auk þess sem Citigroup, JP Morgan og fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka voru fengnir sem leiðandi umsjónaraðilar og söluráðgjafar. Þá var gengið til samninga við íslensku lögmannsstofuna BBA Fjeldco og alþjóðlegu lögmannsstofuna White & Case um að vera lögfræðiráðgjafar við skráninguna. Samhliða ráðningu þeirra fengu svo leiðandi söluráðgjafar LOGOS og Milbank sem lögmenn sína.

Þegar líða tók á sölumeðferðina fékk Bankasýslan til sín fleiri söluráðgjafa til starfa, eða níu talsins. Það voru Barclays Bank Ireland, HSBC Continental Europe, Fossar markaðir, Landsbankinn, Arion banki, Kvika banki, Arctica Finance, Acro verðbréf og Íslensk verðbréf.

Íslandsbanki fékk einnig sér til aðstoðar tímabundið alþjóðlegu lögmannsstofuna Mayer Brown International til undirbúnings á gerð gagnaherbergis og lýsingar. Til viðbótar réð Íslandsbanki sér sjálfstæðan fjármálaráðgjafa við útboðsferlið en það var hollenski bankinn ABN Amro.

Sala á frekari hlutum ríkisins í Íslandsbanka er fyrirhuguð á komandi vikum. Á föstudaginn síðastliðinn tilkynni fjármála- og efnahagsráðherra að hann hefði fallist á tillögu Bankasýslunnar um að stofnunin hefji undirbúning hið fyrsta að framhaldi á sölumeðferð á eftirstandandi 65 prósenta eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka innan næstu tveggja ára, háð því að markaðsaðstæður séu hagfelldar.

Bankasýsla ríkisins horfir til þess að selja eignarhluti ríkisins með blöndu af tveimur þekktum markaðsaðferðum, þ.e. tilboðsfyrirkomulagi og miðlunaráætlun. Sú fyrri felst í útboði til hæfra fjárfesta, en sú síðari í því að verðbréfafyrirtæki fái fyrirmæli um að selja ákveðinn hluta fjölda hluta yfir visst tímabil, háð framboði og eftirspurn hverju sinni. Áætlað er að salan verði í nokkrum áföngum yfir allt að tveggja ára tímabil.

Miðað við núverandi markaðsgengi, sem er um 63 prósentum hærra en útboðsgengið var í júlí í fyrra, er eftirstandandi eignarhlutur ríkissjóður metinn á um 168 milljarða króna.


Tengdar fréttir

Heimilt að selja hvenær sem er á opnum markaði eða í gegnum lokað útboð

Bankasýslunni, sem heldur utan um 65 prósenta eignarhlut ríkissjóðs í Íslandsbanka, er heimilt að selja hlutabréf sín í bankanum hvort heldur sem er á opnum markaði eða í gegnum lokað útboð til fagfjárfesta hvenær sem er eftir að tímabili sölubanns lýkur síðar í þessum mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×