Erlent

Öfga­kenndum gróður­eldum fjölgi um 50 prósent fyrir aldar­lok

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Gróðureldum mun fjölga fyrir aldarlok ef ekkert breytist.
Gróðureldum mun fjölga fyrir aldarlok ef ekkert breytist. Getty/Helen H. Richardson

Öfgakenndir gróðureldar verða tíðari og þeim mun fjölga um 50 prósent fyrir lok þessarar aldar. Þetta kemur fram í nýrri skýrsu Sameinuðu þjóðanna. Þar segir að hætta muni aukast á að gróðureldar geisi á norðurslóðum. 

Vísindamenn Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, sem eru á bak við skýrsluna, skilgreina öfgakennda gróðurelda sem stórbrotna elda sem hingað til hafi aðeins brunnið einu sinni á öld. Þeir segja þó að hækkandi hitastig jarðar og breytt landnotkun muni auka tíðni slíkra elda.

Í skýrslunni kalla þeir eftir því að í stað þess að verja miklum fjármunum í að berjast við gróðurelda verði fjármunum varið í að koma í veg fyrir gróðurelda. 

Í skýrslunni segir að stórir gróðureldar, sem brenni í margar vikur samfleytt, séu að verða heitari og brenni lengur en áður á þeim stöðum þar sem þeir hafa kviknað í gegn um aldirnar. Nú séu gróðureldar hins vegar farnir að kvikna á norðurslóðum, á þornandi mómýrum og þiðnandi sífrerasvæðum. 

Öfgakenndum gróðureldum muni fjölga um 14 prósent fyrir árið 2030, miðað við tölur frá árunum 2010-2020. Aukningin geti numið 30 prósent árið 2050 og 50 prósent fyrir lok aldarinnar. 

Þrátt fyrir að skýrslan fjalli að mestu um öfgakennda elda telja höfundarnir að minni gróðureldum, sem ekki eru flokkaðir sem öfgakenndir, muni líka fjölga á meðan landnotkun breytist og fólki fjölgar. Það geti haft veruleg áhrif á loftslagsvána þar sem brunarnir muni auka magn kolefnis í andrúmsloftinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×