Enski boltinn

Marsch tekur við Leeds United

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jesse Marsch er nýr þjálfari Leeds United.
Jesse Marsch er nýr þjálfari Leeds United. Twitter/@LUFC

Enska knattspyrnufélagið Leeds United var ekki lengi að finna eftirmann Marcelo Bielsa. Félagið tilkynnti í kvöld að Jesse Marsch, 48 ára gamall Bandaríkjamaður, hefði verið ráðinn þjálfari liðsins.

Marsch skrifaði undir samning til ársins 2025 en það kemur þó fram að fyrst þurfi hann að fá atvinnuleyfi. Gangi það eftir þá ætti hann að stýra sínum fyrsta leik um helgina er Leeds mætir Leicester City.

Marsch stýrði síðast RB Leipzig í Þýskalandi en hann tók við sumarið 2021 eftir að Julian Nagelsmann tók við Þýskalandsmeisturum Bayern. Marsch endist ekki lengi sem aðalþjálfari Leipzig en hann var látinn taka poka sinn í desember.

Þessi fyrrum landsliðsmaður Bandaríkjanna var ráðinn sem aðstoðarþjálfari bandaríska landsliðsins eftir að skórnir fóru upp í hillu. Eftir það tók hann við Montreal Impact áður en hann gerðist þjálfari New York Red Bulls.

Þaðan fór hann til Austurríkis þar sem hann gerðist þjálfari Red Bull Salzburg. Var hann þar frá 2019 til 2021 áður en hann tók við Leipzig. Marsch er nú mættur til Leeds United og á að hjálpa liðinu að halda sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni.

Leeds United er í 16. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 23 stig eftir 26 leiki, tveimur stigum fyrir ofan fallsæti. Liðið hefur aðeins skorað 29 mörk til þessa en fengið á sig 60.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×