Enski boltinn

Tuchel: „Ég er ekki stjórnmálamaður“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Chelsea Training and Press Conference COBHAM, ENGLAND - MARCH 01: Thomas Tuchel of Chelsea during a press conference at Chelsea Training Ground on March 01, 2022 in Cobham, England. (Photo by Darren Walsh/Chelsea FC via Getty Images)
Chelsea Training and Press Conference COBHAM, ENGLAND - MARCH 01: Thomas Tuchel of Chelsea during a press conference at Chelsea Training Ground on March 01, 2022 in Cobham, England. (Photo by Darren Walsh/Chelsea FC via Getty Images)

Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, minnti fjölmiðlafólk á blaðamannafundi fyrir leik liðsins í FA-bikarnum á morgun á það að hann er ekki stjórnmálamaður og bað um leið um að spurningum um stríðið í Úkraínu yrði hætt.

„Þið verðið að hætta, ég er ekki stjórnmálamaður,“ sagði Tuchel á fundinum í dag eftir enn eina spurninguna um stríðið í Úkraínu og rússneska eiganda Chelsea, Roman Abramovich.

„Ég get bara endurtekið það sem ég hef sagt áður og mér líður illa yfir því að þurfa að endurtaka það því ég hef aldrei upplifað stríð. Þannig bara það að ég sé að tala um það lætur mér líða illa.“

„Ég er í mikilli forréttindastöðu að sitja hér í friði. Ég geri eins vel og ég get en þið verðið að hætta að spyrja mig þessara spurninga þar sem ég hef engin svör fyrir ykkur.“

Eigandinn Roman Abramovich steig til hliðar sem stjórnandi í daglegum rekstri félagsins nú um liðna helgi, en Tuchel segir að það hafi lítil sem engin áhrif á sig eða leikmenn liðsins.

„Fyrir mig sem þjálfara og sem knattspyrnustjóri aðalliðsins þá breytist staðan ekki mjög mikið í okkar daglega rekstri.“

Að lokum bætti Tuchel einnig við að hann vildi helst ekki tjá sig um það hvort honum þætti það vandamál að Abramovich væri eigandi liðsins.

„Það er kannski of mikið fyrir mig að svara því,“ sagði Tuchel. „Ég er ekki með smáatriðin á hreinu og get því ekki tjáð mig almennilega um stöðuna. Við erum samt öll sammála um það að þessi staða er mun alvarlegri en fótbolti.“

„Þetta mun aldrei breytast. Hlutir eins og stríð eru auðvitað mun mikilvægari en það er ekki mitt að ræða um stöðuna með Abramovich. Ég veit ekki nóg um málið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×