Fótbolti

Fyrirliði Freys missti eiginkonu sína

Sindri Sverrisson skrifar
Cecilie og Marcel Römer með börnunum sínum tveimur á brúðkaupsdaginn.
Cecilie og Marcel Römer með börnunum sínum tveimur á brúðkaupsdaginn. Instagram/@marcelromer

Marcel Römer, fyrirliði danska knattspyrnufélagsins Lyngby, er kominn í leyfi um óákveðinn tíma eftir að eiginkona hans, Cecilie, lést á mánudaginn.

Danski fótboltavefurinn bold.dk greinir frá þessu með leyfi Lyngby, sem leikur undir stjórn þjálfarans Freys Alexanderssonar, og Römers sjálfs.

„Við getum því miður fært þær skelfilegu fréttir að á mánudaginn missti Marcel eiginkonu sína Cecilie,“ segir Andreas Byder, framkvæmdastjóri Lyngby, við bold.dk.

„Hugur okkar allra er hjá Marcel, börnum þeirra tveimur og allri fjölskyldunni sem nú syrgir. Þetta er óraunveruleg staða, sem við getum öll sett okkur inn í, og veldur miklum sársauka hjá öllum í félaginu,“ sagði Byder og tók fram að forráðamenn Lyngby hefðu að sjálfsögðu boðið Römer allan þann stuðning sem hann og fjölskylda hans gæti óskað.

Römer á tvo íslenska liðsfélaga í Lyngby, þá Sævar Atla Magnússon og markvörðinn Frederik Schram. Þeir senda Römer samúðarhjörtu á Instagram þar sem fyrirliðinn birti myndir af sér og Cecilie og minntist ástkærrar eiginkonu sinnar.

Römer hefur skorað tvö mörk í sautján leikjum fyrir Lyngby á leiktíðinni og er liðið í næstefsta sæti dönsku 1. deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×