Enski boltinn

Ten Hag vill fara frá Ajax í sumar og er byrjaður að læra ensku

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erik Ten Hag kveður Ajax væntanlega eftir tímabilið.
Erik Ten Hag kveður Ajax væntanlega eftir tímabilið. getty/Dennis Bresser

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Ajax, virðist vera farinn að búa sig undir að taka mögulega við Manchester United. Hann er allavega byrjaður að læra ensku.

Ten Hag hefur verið sterklega orðaður við United á undanförnum mánuðum. Hann ku vera efstur á blaði Ralfs Rangnick, bráðabirgðastjóra United, sem tekur þátt í að velja eftirmann sinn.

Forráðamenn Ajax eru meðvitaðir um að Ten Hag vilji fara frá félaginu eftir tímabilið. Hann hefur áhuga á að taka við United og virðist vera byrjaður að undirbúa sig fyrir það, meðal annars með því að auka færni sína í ensku.

Ten Hag og Mauricio Pochettino, stjóri Paris Saint-Germain, þykja líklegastir til að taka við United eftir tímabilið. Carlo Ancelotti, stjóri Real Madrid, hefur einnig verið nefndur til sögunnar í þessu samhengi.

Ten Hag, sem er 52 ára, hefur styrt Ajax með góðum árangri frá 2017. Undir hans stjórn hefur Ajax tvisvar sinnum orðið hollenskur meistari, tvisvar sinnum bikarmeistari og tímabilið 2018-19 komst liðið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu. 

Ajax er með tveggja stiga forskot á toppi hollensku úrvalsdeildarinnar, komið í undanúrslit bikarkeppninnar og er í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Liðið gerði 2-2 jafntefli við Benfica í fyrri leik sínum þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×