Félagaskipti Goodwillies til Raith Rovers frá Clyde vöktu mikla athygli en Raith Rovers var harkalega gagnrýnt fyrir að semja við framherjann. Árið 2017 var Goodwillie fundinn sekur um að vera nauðgari í einkamáli ásamt fyrrverandi samherja sínum, David Robertson.
Kaup Raith Rovers á Goodwillie voru fordæmd, nokkrir starfsmenn félagsins sögðu upp vegna þeirra, fyrirliði kvennaliðs félagsins hætti og stærsti styrktaraðili þess stökk frá borði. Á endanum baðst stjórnarformaður Raith Rovers, John Sim, afsökunar á kaupunum.
Goodwillie spilaði aldrei fyrir Raith Rovers og félagið lánaði hann aftur til Clyde, liðsins sem hann var keyptur frá.
Sjónvarpsmönnum Sky Sports varð á í messunni þegar þeir fluttu fréttir af því. Þeir sögðu að 2017 hefði hann verið fundinn sekur um að vera rasisti (e. racist) en ekki nauðgari (e. rapist). Eftir að upp komst um mistökin bað Sky Sports Goodwillie afsökunar á þeim.
Félagaskiptin til Clyde vöktu einnig mikið umtal og voru víða gagnrýnd. North Lanarkshire Council, sem á heimavöll Clyde, sagðist til að mynda ætla að endurskoða samstarf sitt við félagið.