Enski boltinn

Lék sem framherji til þrettán ára aldurs

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kelleher fagnar sigrinum í deildarbikarnum.
Kelleher fagnar sigrinum í deildarbikarnum. Chris Brunskill/Getty Images

Caoimhín Kelleher, markvörður Liverpool, var hetjan – að vissu leyti allavega – er Liverpool vann enska deildarbikarinn um síðustu helgi. Það hefur eflaust hjálpað kauða að hann lék sem framherji til 13 ára aldurs.

Liverpool vann Chelsea í úrslitum enska deildarbikarsins en eftir markalausan leik þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni til ákvarða hvort liðið myndi fara heim með bikarinn eftirsótta. Kelleher og Kepa Arrizabalaga, markvörður Chelsea, gerðu reyndar lítið ekkert gagn þegar kom að því að verja en staðan var orðin 10-10 þegar Kelleher þurfti að fara á punktinn.

Hinn 23 ára gamli Íri skoraði af öryggi og í kjölfarið negldi Kepa boltanum út á sporbraut og Liverpool gat leyft sér að fagna fyrsta titli tímabilsins.

Segja má að Kelleher hafi þarna réttlætt val Jürgens Klopp en hann ákvað að geyma brasilíska markvörðinn Alisson á varamannabekknum á meðan Kelleher byrjaði sinn 17. aðalliðsleik á ferlinum.

„Ef það virkar þá snýst allt um Caoimhín, ef það virkar ekki þá snýst allt um mig,“ sagði Klopp fyrir leik og hafði svo sannarlega rétt fyrir sér.

Það virðist sem árin sem fremsti maður hjá Ringmahon Rangers í Cork á Írlandi hafi skilað sér þegar mest á reyndi en Kelleher gat vart verið rólegri er hann steig á vítapunktinn og smellti boltanum framhjá dýrasta markverði allra tíma.

Þó Kelleher hafi ekki varið eina af 11 vítaspyrnum Chelsea þá varði hann vel frá Romelu Lukaku undir lok venjulegs leiktíma og sýndi svo sannarlega að hann getur vel spilað leik af þessari stærðargráðu.

Það er því spurning hvort Klopp leiti aftur til Kelleher er Liverpool gerir atlögu að þeim þremur titlum sem eftir eru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×