Enski boltinn

Talið að Ron­aldo missi af Manchester-slagnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Cristiano Ronaldo og Ralph Rangnick.
Cristiano Ronaldo og Ralph Rangnick. Chris Brunskill/Getty Images

Cristiano Ronaldo var hvergi sjáanlegur er leikmenn Manchester United hittust á Lowry-hótelinu í gærkvöld til að undirbúa sig fyrir stórleik dagsins er þeir mæta Englandsmeisturum Manchester City á Etihad-vellinum. Alls vantaði fjóra leikmenn sem væru öllu jafna í hóp liðsins.

Stærsta nafnið sem var hvergi sjáanlegt er leikmenn Man United mættu á hótelið var aðalstjarna liðsins, Ronaldo sjálfur. Hann hefur leidd línu liðsins að undanförnu en ekki fundið netmöskvana, það er hins vegar ljóst að reynsla hans myndi reynast ansi dýrmæt í leik sem þessum.

Þrátt fyrir að hafa átt erfitt uppdráttar í vetur er hinn 37 ára gamli Ronaldo markahæsti leikmaður United-liðsins á tímabilinu. Í 23 leikjum í deildinni hefur hann skorað 9 mörk og lagt upp önnur þrjú. Í Meistaradeild Evrópu er hann svo með sex mörk í sex leikjum.

Edinson Cavani var sömuleiðis hvergi sjáanlegur en hann hefur verið að glíma við meiðsli í nára og virðist sem þolinmæði Ralph Rangnick, þjálfara Man Utd, í garð framherjans hárprúða sé á þrotum.

Þá voru varnarmennirnir Luke Shaw og Raphaël Varane hvergi sjáanlegir en það er deginum ljósara að það væri gríðarlegt högg fyrir Rangnick og lærisveina hans að vera án þessara sterku leikmanna í dag.

Manchester City trónir á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með 66 stig eftir 27 leiki, þremur meira en Liverpool sem er í 2. sætinu. Manchester United er í 4. sæti sem stendur með 47 stig eftir jafn marga leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×