Enski boltinn

Rangnick segir leik­menn sína skorta and­legan styrk

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik Man City og Man Utd um helgina.
Úr leik Man City og Man Utd um helgina. Tom Purslow/Getty Images

Ralf Rangnick hefur þurft að glíma við ýmis vandamál síðan hann tók við sem þjálfari Manchester United. Hann telur leikmenn sína skorta andlegan styrk en liðið tapaði 4-1 fyrir nágrönnum sínum í Man City um helgina.

Rangnick tók við sem tímabundinn þjálfari liðsins fyrir áramót með það að markmiði að stýra liðinu út tímabilið og gerast í kjölfarið tæknilegur ráðgjafi. Eitt hans fyrsta verk að ráða íþróttasálfræðinginn Sascha Lense. Það virðist hafa verið mikil þörf á því en Þjóðverjinn telur það deginum ljósara að leikmannahópur Man United skortir andlegan styrk. 

Hann telur að nær allir leikmenn liðsins eigi erfitt með að yfirstíga erfiðleika. Einu tveir sem virðast ráða við mótlæti eru Scott McTominay og Luke Shaw segir í frétt ESPN um málið.

Þó Man Utd hafi aðeins tapað tveimur af 18 leikjum sínum síðan Rangnick tók við þá hefur liðið jafnframt aðeins unnið 8 leiki. Fimm sinnum hefur liðið glutrað niður forystu og endað á að gera jafntefli.

Ralf Rangnick, þjálfari Man Utd.AP Photo/Jon Super

Aðeins tvívegis hefur liðið komið til baka og náð í stig eftir að lenda undir, gegn Newcastle United og Atlético Madríd.

Rangnick og teymi hans hefur miklar áhyggjur af því hversu oft liðið hefur byrjað leiki sterkt og komist yfir til þess eins að enda á að ríghalda í eitt stig eftir að andstæðingurinn hefur jafnað metin.

Manchester United er í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 47 stig að loknum 28 leikjum, stigi minna en Arsenal sem er í 4. sæti með þrjá leiki til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×