Anníe Mist keppir ekki í einstaklingskeppni heimsleikanna í ár heldur í liði undir merkjum CrossFit Reykjavík. Með henni í liði eru þau Lauren Fisher, Khan Porter og Tola Morakinyo.
Eins og venjan er á The Open þá er hver æfing kynnt með keppni milli tveggja af besta CrossFit fólki heims og þannig hefur það einnig verið í ár.
Nú þegar komið er að æfingu 22.3 þá munu tvö lið keppa. Annars vegar eru það Anníe Mist og félagar hennar í CrossFit Reykjavík og hins vegar er það CrossFit Hendersonville frá Tennessee-fylki í Bandaríkjunum.
Keppni þeirra hefst klukkan átta að íslenskum tíma í kvöld og verður hægt að fylgjast með öllu á YouTube-síðu heimsleikanna.
Það er ljóst að Anníe Mist og þau Lauren Fisher, Khan Porter og Tola Morakinyo eru þegar búin að ná upp góðum takti eins og má sjá á þessu stórskemmtilega myndbandi sem þau settu inn á Instagram.