Enski boltinn

Eignir Abramovichs frystar og salan á Chelsea í uppnámi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Chelsea hefur unnið fjölda titla síðan Roman Abramovich keypti félagið fyrir nítján árum.
Chelsea hefur unnið fjölda titla síðan Roman Abramovich keypti félagið fyrir nítján árum. getty/Marc Atkins

Ríkisstjórn Bretlands hefur fryst eignir Romans Abramovich, eiganda Chelsea, vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Abramovich ku hafa sterk tengsl við Vladimír Pútín, forseta Rússlands, en hefur sjálfur hafnað því.

Auk Abramovichs beitti ríkisstjórn Bretlands sex aðra rússneska olígarka refsiaðgerðum. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sagði að þeir sem styddu innrás Rússa í Úkraínu ættu ekki lengur öruggt skjól á Bretlandi.

Í síðustu viku greindi Abramovich frá því að hann ætlaði að selja Chelsea sem hann hefur átt frá 2003.

Chelsea hefur fengið sérstakt leyfi til að halda daglegri starfsemi áfram, og leikmenn og starfsfólk félagsins fá því enn greidd laun, en bið verður á því að Abramovich geti selt félagið.

Abramovich má ekki hagnast neitt á því að eiga Chelsea og því má félagið ekki selja fleiri miða á leiki í vetur. Aðeins ársmiðahafar og þeir sem voru búnir að kaupa miða á leiki mega mæta á þá. Verslun á Stamford Bridge sem selur Chelsea-varning hefur einnig verið lokað. Þá má Chelsea ekki kaupa og selja leikmenn né gera nýja samninga við þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×