Enski boltinn

Fyrrum liðs­fé­lagi segir Maguire ekki nægi­lega góðan til að leiða lið Man United

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Harry Maguire, fyrirliði Manchester United.
Harry Maguire, fyrirliði Manchester United. EPA-EFE/ANDREW YATES

Harry Maguire hefur ekki sjö dagana sæla að undanförnu. Frammistöður hans með Manchester United hafa ekki verið upp á marga fiska og nú hefur fyrrverandi samherji enska miðvarðarins sagt að hann sé ekki nægilega góður fyrir enska úrvalsdeildarfélagið.

Hinn 29 ára gamli Maguire gekk í raðir Man United frá Leicester City sumarið 2019. Kaupverðið var litlar 80 milljónir punda og var hann orðinn fyrirliði Man Utd aðeins tæpum sex mánuðum síðar.

Hann lék vel með liðinu í upphafi en undanfarið hefur mikið gengið á frammistöðum hans hrakað. Þó Man Utd hafi unnið Tottenham Hotspur 3-2 um liðna helgi þá skoraði Maguire sjálfsmark í leiknum.

Nú hefur Ahmed Elmohamady, fyrrverandi samherji Maguire hjá Hull City, sagt hreint og beint að miðvörðurinn sé ekki nægilega góður fyrir Man United.

„Þegar ég og Harry Maguire spiluðum saman fyrir Hull City á sínum tíma þá gat ég ekki séð fyrir mér að hann myndi spila fyrir félag eins og Man United. Hann er ekki nægilega góður,“ sagði Elmohamady í sjónvarpsviðtali á beIN Sports.

„Manchester United þarf fyrirliða með stóran og sterkan persónuleika. Cristiano Ronaldo til dæmis, hann hefur það sem þarf til að leiða Man United út á völlinn. Maguire er einfaldlega ekki nægilega góður til að spila fyrir eitt stærsta félags Englands,“ sagði hinn 34 ára gamli Elmohamady að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×