Erlent

Fann tvo unga drengi sem hafði verið leitað í mánuð í Ama­son

Atli Ísleifsson skrifar
Auðvelt getur reynst að týnast í þéttum frumskógi Amasón.
Auðvelt getur reynst að týnast í þéttum frumskógi Amasón. Getty

Tveir ungir drengir af frumbyggjaættum eru komnir í leitirnar eftir að þeirra hafði verið leitað í fjórar vikur í regnskógum Amasón í Brasilíu. Það var skógarhöggsmaður sem fann drengina fyrir tilviljun á þriðjudag og hafa þeir nú verið fluttir á sjúkrahús.

BBC segir frá því að bræðurnir, þeir Glauco og Gleison Ferreira, átta og sex ára, hafi týnst eftir að hafa verið á fuglaveiðum í regnskóginum nærri bænum Manicoré.

Talið er að drengirnir muni ná fullum bara en þeir njóta nú aðhlynningar á sjúkrahúsi vegna vannæringar.

Mörg hundruð manns tóku þátt í leitinni að drengjunum eftir að tilkynnt var um hvarf þeirra. Regntímabil er í fullum gangi í frumskógum Amasón um þetta leyti sem torveldaði allt björgunarstarf enn frekar.

Björgunarlið ákvað að hætta formlegri leit þann 24. febrúar síðastliðinn þó að fjölmargir sjálfboðaliðar hafi þó haldið leitinni áfram.

Skógarhöggsmaður fann svo drengina af einskærri tilviljun um sex kílómetra frá þorpinu Palmeira þar sem drengirnir búa hjá foreldrum sínum.

Annar drengjanna hafði þá hrópað á hjálp þegar hann heyrði í skógarhöggsmanninum að störfum. Maðurinn fann svo bræðurna þar sem þeir lágu illa haldnir á jörðinni.

Drengirnir sögðu foreldrum svo sínum að þeir hafi ekki borðað neitt á meðan þeir voru týndir í skóginum og einungis drukkið regnvatn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×