Jota skaut Liver­pool í undan­úr­slit FA-bikarsins: Mæta Man City

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Diogo Jota skorar markið sem kom Liverpool áfram.
Diogo Jota skorar markið sem kom Liverpool áfram. Andrew Powell/Getty Images

Liverpool er komið í undanúrslit FA-bikarsins í knattspyrnu eftir 1-0 sigur á B-deildarliði Nottingham Forest. Liverpool er síðasta liðið inn í undanúrslitin, þar mætir liðið Manchester City á meðan Chelsea og Crystal Palace mætast í hinum leiknum.

Liverpool heimsótti Nottingham í kvöld vitandi að ef sigur myndi vinnast ætti liðið enn möguleika á að vinna alla fjóra stóru titlana sem í boði eru á leiktíðinni og að viðureign gegn Manchester City í undanúrslitum biði þess.

Heimamenn gerðu Liverpool lífið leitt í fyrri hálfleik en staðan var markalaus er flautað var til loka hans. Síðari hálfleikur hófst á sömu nótum og gerði Jürgen Klopp þegar rúmlega klukkutími var liðinn af leiknum.

Út fóru þeir Alex Oxlade-Chamberlain, Harvey Elliott, Naby Keita og Fabinho. Inn komu þeir Luis Díaz, Takumi Minamino, Jordan Henderson og Thiago.

Á endanum voru það hins vegar tveir menn sem byrjuðu leikinn sem tryggðu Liverpool sæti í undanúrslitum. 

Konstantinos Tsimikas átti þá frábæra sendingu á Jota sem skoraði úr þröngu færi. Portúgalinn var hársbreidd frá því að vera rangstæður en hann slapp fyrir horn.

Staðan orðin 1-0 gestunum í vil og það reyndust lokatölur leiksins.


Enska bikarkeppnin, FA Cup, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. FA Cup er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira