Chelsea ekki í vand­ræðum og komið í undan­úr­slit

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Chelsea fagna öðru marki sínu í dag.
Leikmenn Chelsea fagna öðru marki sínu í dag. Owen Humphreys/Getty Images

Tvö mörk í fyrri hálfleik tryggðu Chelsea sæti í undanúrslitum FA bikarsins. Lærisveinar Thomas Tuchel lögðu B-deildarlið Middlesbrough 2-0 í dag á Riverside-vellinum í Middlesbrough.

Fyrir leikinn má segja að Boro hafi verið sýnd veiði en ekki gefin þar sem B-deildarliðið hafði slegið bæði Manchester United og Tottenham Hotspur úr keppni á leið sinn í 8-liða úrslitin. Chelsea er hins vegar allt annað dýr og átti ekki í miklum vandræðum í dag.

Eftir sléttan stundarfjórðung átti Mason Mount sendingu frá hægri sem Romelu Lukaku stýrði í netið og staðan orðin 1-0 gestunum í vil. 

Aftur leið stundarfjórðungur og boltinn var í neti heimamanna á nýjan leik, aftur var það Mount sem gaf á samherja að þessu sinni var það afmælisbarnið Hakim Ziyech sem kom knettinum í netið með frábæru skoti fyrir utan teig.

Staðan orðin 2-0 og enn klukkutími eftir af leiknum. Fleiri urðu mörkin hins vegar ekki í fyrri hálfleik og þó Chelsea hafi ógnað marki Middlesbrough oftar en einu sinni í síðari hálfleik urðu mörkin ekki fleiri. 

Lokatölur því 2-0 Chelsea í vil og liðið komið í undanúrslit FA bikarsins annað árið í röð, á síðustu leiktíð tapaði liðið fyrir Leicester City í úrslitum.


Enska bikarkeppnin, FA Cup, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. FA Cup er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira