Enski boltinn

Of lítið of seint hjá Brent­ford gegn Leicester

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
James Maddison skoraði annað mark Leicester City í dag.
James Maddison skoraði annað mark Leicester City í dag. EPA-EFE/Peter Powell

Leicester City vann 2-1 sigur á nýliðum Brentford í fyrri leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Danski landsliðsmaðurinn Christian Eriksen er með kórónuveiruna og lék ekki með Brentford í leik dagsins. Það var skarð fyrir skildi fyrir nýliðana en Eriksen hefur komið sterkur inn í leið þeirra að undanförnu.

Heimamenn nýttu sér fjarveru Eriksen og byrjuðu leikinn betur. Eftir tuttugu mínútna leik komust þeir yfir þegar vinstri bakvörðurinn Timothy Castagne skoraði með góðu skoti fyrir utan teig sem David Raya réð ekkert við í marki Brentford.

Þrettán mínútum síðar fengu heimamenn aukaspyrnu þegar Mathias Jensen braut á James Maddison. Það var Maddison sjálfur sem tók spyrnuna og skrúfaði boltann í netið, staðan orðin 2-0 og þannig var staðan í hálfleik.

Gestirnir gerðu hvað þeir gátu til að minnka muninn í síðari hálfleik og það tókst loks á 85. mínútu þegar Yoane Wissa skoraði með skoti fyrir utan teig. Nær komst Brentford ekki og leiknum lauk með 2-1 sigri Leicester.

Leicester City er nú með 36 stig í 10. sæti deildarinnar, jafn mörg stig og Aston Villa sem er sæti ofar eftir að hafa leikið tveimur leikjum meira. Brentford er í 15. sæti með 30 stig, átta stigum fyrir ofan fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×