Barcelona með góða forystu eftir endurkomusigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Alexia Putellas skoraði tvö mörk fyrir Börsunga í kvöld.
Alexia Putellas skoraði tvö mörk fyrir Börsunga í kvöld. Angel Martinez/Getty Images

Evrópumeistarar Barcelona unnu góðan 3-1 útisigur gegn Real Madrid í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta kvenna í kvöld eftir að hafa lent undir.

Olga Garcia Carmona kom heimakonum í Real Madrid yfir með marki strax á áttundu mínútu, en Alexia Putellas, besta knattspyrnukona heims, jafnaði metin af vítapunktinum snemma í síðari hálfleik.

Það var svo Claudia Pina sem kom í Börsungum 2-1 með marki þegar um tíu mínútur voru til leiksloka og Alexia Putellas bætti þriðja markinu við í uppbótartíma.

Niðurstaðan varð því 3-1 sigur Barcelona, en liðið hefur unnið hvorki fleiri né færri en 35 leiki í röð.

Leikurinn í kvöld fór fram á Alfredo Di Stefano vellinum í Madrid en það hefur verið gagnrýnt að Real Madrid skuli, eitt félaga í átta liða úrslitum keppninnar, ekki nýta sinn stærsta leikvang fyrir leikinn.

Liðin mætast að nýju á Camp Nou í Barcelona, frammi fyrir 85.000 áhorfendum, á miðvikudaginn í næstu viku.

Leikurinn var í beinni og opinni útsendingu DAZN sem hægt er að horfa á hér að neðan.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira