Innherji

Segir brigslyrði um myrkraverk við sölu bankans ódýr af hálfu þingmanna

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Hildur Sverrisdóttir segir ekki koma á óvart að þau sem einfaldlega vilja ekki að ríkið selji hlut sinn í banka séu á móti því og vísar þar í þingmenn stjórnarandstöðunnar sem gagnrýna hafa söluna.
Hildur Sverrisdóttir segir ekki koma á óvart að þau sem einfaldlega vilja ekki að ríkið selji hlut sinn í banka séu á móti því og vísar þar í þingmenn stjórnarandstöðunnar sem gagnrýna hafa söluna.

Hildur Sverrisdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir fullyrðingar margra þingmanna í þingsal í gær um úboð á hlut ríkisins í Íslandsbanka ódýrar. 

Ekkert í ferlinu hafi þingið ekki haft vitneskju um fyrirfram og ekkert sé til í fullyrðingum þeirra um að bankinn hafi verið seldur á undirverði.

Hildur ritar grein á Innherja í morgun þar sem hún segir söluna á bankanum ekki vera neitt launungamál. „Það var því áhugavert að fylgjast með umræðu margra þingmanna í þingsal í gær sem virtust koma algjörlega af fjöllum þrátt fyrir að tilkynnt hafi verið um söluna fyrirfram í þinglegri meðferð viðkomandi þingnefnda. Sérstaklega virðist hafa komið þeim á óvart að salan færi fram með tilboðsfyrirkomulagi sem þó hafði verið boðað og hlaut alltaf að þurfa að gerast milli þess að markaðir lokuðu þar til þeir opnuðu næsta dag,” segir Hildur í greininni.

Það komi Hildi ekki á óvart að þau sem einfaldlega vilja ekki að ríkið selji hlut sinn í banka séu á móti því. „Það er líka skiljanlegt að það komi öðrum sem helst vilja ekki að ríkið sé mikið að vafstra í bankarekstri undarlega fyrir sjónir að útboð hafi hafist og því lokið á nokkrum klukkustundum, eftir lokun markaða og áður en þeir opnuðu að nýju.”

Hins vegar sé aðferðin sem notast var við einföldust og áreiðanlegust til að selja stóran eignarhlut í skráðu félagi á markaði án þess að hafa of mikil áhrif á markaðsverð. Aðferðin sé notuð reglulega á hlutabréfamörkuðum um allan heim.

Hildur útskýrir að í svona sölum sé ekki um eiginlegt undirverð að ræða, líkt og þingmenn stjórnarandstöðu hafa viljað halda fram. „Afsláttarkjörin á sölu sem þessari eru engan veginn óeðlileg og í raun lægri en yfirleitt.”

Hún segir skiljanlegt að fólk spyrji spurninga um stóra viðskiptagerninga. „En þær eru ódýrar fullyrðingarnar og brigslyrði um myrkraverk þegar það er ekkert í þessu reglubundna ferli sem þingið átti ekki að hafa vitneskju um fyrirfram.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×