Íslenski boltinn

KA spilar fyrstu heimaleikina á Dalvík

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr leik á Greifavellinum á síðasta tímabili. KA spilar ekki þar í sumar.
Úr leik á Greifavellinum á síðasta tímabili. KA spilar ekki þar í sumar. vísir/Óskar Ófeigur

KA spilar væntanlega fyrstu heimaleiki sína í Bestu deild karla á Dalvík. Enn á eftir að leggja gervigras á nýjan framtíðarvöll KA.

Í fyrra spilaði KA fyrstu fjóra heimaleiki sína á Dalvík áður liðið færði sig yfir á Greifavöllinn. Í sumar ætla KA-menn að láta langþráðan draum rætast og spila á KA-svæðinu. En hvenær það verður liggur ekki fyrir.

„Það er ekki komin nein dagsetning hvenær á að byrja að leggja það. Mér skilst að það geti tekið þrjár vikur. Markmiðið var að byrja á því í byrjun apríl en ég veit ekki alveg stöðuna á því,“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari KA, við Vísi.

„Auðvitað er þetta mikið rask. Það verða þrjár vikur þar sem er ekki hægt að nota völlinn. Það eru ekkert margir vellir sem er hægt að nota hérna á Akureyri. Við þurfum að leysa það, hvort sem það er að æfa inni í Boganum á morgnana eða keyra á Dalvík.“

Fleira þarf að gera en að leggja gervigras á völlinn á KA-svæðinu til að hann standist leyfiskerfi KSÍ varðandi aðstöðu fyrir áhorfendur, fjölmiðla og aðra.

„Ég held að markmiðið sé að við getum spilað alla keppnisleiki á KA-svæðinu,“ sagði Arnar.

„En ég geri ráð fyrir því að við byrjum á Dalvík. Það fer eftir því hvenær verður byrjað að leggja gervigrasið og koma upp stúku. Ég geri ráð fyrir að við spilum allavega tvo eða þrjá leiki á Dalvík. En við byrjum allavega þar. Fyrsti heimaleikurinn er gegn Leikni. Menn ætluðu skipta á heimaleik og byrja í Breiðholtinu en þeir voru ekkert spenntir fyrir því þar sem grasið er ekki tilbúið.“

Fyrsti heimaleikur KA er gegn Leikni 20. apríl, annar gegn Keflavík 2. maí og sá þriðji gegn FH 11. maí.

KA endaði í 4. sæti á síðasta tímabili sem er næstbesti árangur í sögu félagsins. KA-menn misstu af Evrópusæti í lokaumferðinni þegar þeir gerðu 2-2 jafntefli við FH.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×