Enski boltinn

Pogba orðaður við Aston Villa og New­cast­le

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Verður Paul Pogba áfram í ensku úrvalsdeildinni?
Verður Paul Pogba áfram í ensku úrvalsdeildinni? Ash Donelon/Getty Images

Franski knattspyrnumaðurinn Paul Pogba er orðaður við Aston Villa og Newcastle United þessa dagana. Samningur hans rennur út í sumar.

Háværir orðrómar hafa verið um að Paul Pogba muni yfirgefa Manchester United í annað sinn í sumar er samningur hans við félagið rennur út. Hann hefur verið orðaður við fjölda liða en nú eru tvö ný komin inn í myndina, þau spila bæði í ensku úrvalsdeildinni.

Hinn 29 ára gamli Paul Pogba opinberaði það nýverið að hann hefði glímt við þunglyndi síðan José Mourinho var þjálfari Man United. Það er því frekar ólíklegt að Pogba muni ganga í raðir Roma á Ítalíu í sumar þar sem Mourinho þjálfar nú.

Franski miðvallarleikmaðurinn hefur verið orðaður við stórlið á borð París Saint-Germain, Real Madríd og Barcelona en nú hafa tvö ensk félög blandað sér í baráttuna.

Nýríkt lið Newcastle er að byggja lið til að berjast um titla og Eddie Howe – þjálfari liðsins – virðist sjá Pogba fyrir sér sem mikilvægt púsl í þeirri uppbyggingu. Þá hefur Aston Villa verið nefnt til sögunnar en Steven Gerrard vill byggja upp lið sem getur gert meira en að enda um miðja deild.

Það virðist deginum ljósara að Pogba muni yfirgefa Man United frítt – í annað sinn á ferlinum – í sumar. Hvar og hvort hann muni finna gleðina á ný verður hins vegar að koma í ljós þegar fram líða stundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×