Menning

„Innblásturinn kemur bara af öllu sem við gerum“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Listamaðurinn Árni Már Erlingsson sækir gjarnan innblástur í hversdagsleikann. 
Listamaðurinn Árni Már Erlingsson sækir gjarnan innblástur í hversdagsleikann.  Vilhelm Gunnarsson/Vísir

Listamaðurinn Árni Már Erlingsson rekur Gallery Port á Laugavegi 32 en galleríið opnaði fyrst dyrnar fyrir um sex árum síðan. Árni Már er gestur í nýjasta þætti af KÚNST sem er að finna hér:

Klippa: KÚNST - Árni Már

List til styrktar Úkraínu

Það er nóg um að vera í lífi Árna þar sem hann vinnur sem myndlistarmaður, sér um rekstur Portsins og heldur reglulegar sýningar. Meðal annars hefur hann skipulagt viðburðina Artists 4 Ukraine sem er listaverkauppboð á íslenskri myndlist og öll sala uppboðsins rennur til góðgerðarmálefna í Úkraínu. Hægt er að fylgjast með því hér.

Sjósundið, lífið og tilveran

Sem listamaður er Árni hvað þekktastur fyrir þykka áferð á striga en hugmyndin að þeim verkum kviknaði meðal annars í gegnum sjósundið, sem Árni hefur stundað í dágóðan tíma og kallar sport lata mannsins þar sem útrásin er öflug fyrir stuttan tíma. 

Þrátt fyrir að vera heillaður af sjónum segir hann innblásturinn ekki skorðaðan við eitthvað afmarkað.

„Þessi hugmynd um innblástur og allt þetta. 

Jú vissulega geturðu farið á sýningar og fengið massívan innblástur af einhverju og eitthvað svoleiðis en ég held að innblásturinn komi bara af öllu sem við gerum,“ 

segir Árni en verk hans sækja meðal annars innblástur í hversdagsleikann út í gegn og þá sérstaklega í ákveðinni seríu þar sem hann notast við form sem hafa fylgt honum lengi.

„Þessi form verða til af því þetta var einhvern veginn eitthvað sem ég var alltaf að gera. 

Til dæmis ef ég var í símanum og að krassa á blað á meðan. Eða ég var á fundi og var með bók við hliðina á mér. Þá var ég alltaf að krassa einhver form. Þannig ég ákvað að taka það sérstaklega fyrir og drita niður öllum þessu helstu formum sem ég var alltaf að teikna og útfæra þau í þessi verk.“

Þættirnir KÚNST með Dóru Júlíu rannsaka hinar ýmsu víddir listsköpunar, ólíka listmiðla og sköpunargleði hjá íslenskum samtíma listamönnum ásamt því að fá að skyggnast bak við tjöldin og heyra um persónulegt líf þeirra.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×