Lífið

„Með klút um hálsinn því ég var enn með mar eftir hendurnar á honum“

Elísabet Hanna skrifar
Edda Sif hefur starfað í áratug hjá Ríkisútvarpinu og fylgt afreksfólki Íslands í íþróttum eftir á stórmótum erlendis.
Edda Sif hefur starfað í áratug hjá Ríkisútvarpinu og fylgt afreksfólki Íslands í íþróttum eftir á stórmótum erlendis. Edda Sif

Edda Sif Pálsdóttir, íþróttafréttamaður á RÚV, segir að lögreglukona hafi tjáð henni fyrir fjórum árum að árás sem hún hafi orðið fyrir árið 2012 væri álitin tilraun til manndráps í dag. 

Edda Sif tjáir sig í fyrsta skipti í Vikunni um árásina en gerandinn var samstarfsmaður hennar sem hún hafði átt í ástarsambandi við.

Var um tvítugt þegar sambandið hófst

Edda var um tvítugt þegar hún byrjaði í sambandi með samstarfsfélaga sínum á íþróttadeild RÚV og var hann fjórtán árum eldri. Eins og fram kom í fjölmiðlum á sínum tíma er maðurinn sem um ræðir Hjörtur Hjartarson, fyrrverandi knattspyrnumaður sem starfaði einnig á íþróttadeild Ríkisútvarpsins.

Edda segist alltaf hafa haft áhuga á íþróttum og fjölmiðlum og hafi alltaf líkað fjörið á fréttastofum. Þar má segja að hún hafi alist upp, dóttir Páls Magnússonar fyrrverandi útvarpsstjóra og fréttastjóra Stöðvar 2.

„Þetta er þessi dæmigerða saga sem við höfum heyrt margoft um ofbeldissambönd. Maður sogast bara inn í einhverjar aðstæður sem maður ræður illa við og áttar sig ekki á hvenær þær eru orðnar óeðlilegar,“ segir hún um sambandið í viðtalinu.

Fékk aðstoð frá Bjarkarhlíð

Edda segir í viðtalinu við Vikuna að enginn hafi talað jafn fallega til hennar og Hjörtur á þessum tíma. Hún hafi því dregið úr vanköntum við sambandið en fólk hafi haft áhyggjur af henni. Hún segist hafa fengið smá áfall þegar hún leitaði til Bjarkarhlíðar sex árum eftir árásina sem hjálpaði henni að sjá sambandið í réttu ljósi.

„Ég tikkaði í öll boxin hvort sem það var fjárhagslegt, andlegt, kynferðislegt eða líkamlegt obeldi, hótanir og þar fram eftir götunum,“

Botninn náðist inni á klósetti á Grand hótel

Atvikið sem um ræðir gerðist þar sem þau voru bæði að vinna í tengslum við kjörið á íþróttamanni ársins í janúar 2012. Hún segir að ef ekki hefðu verið vitni að hluta atburðarásarinnar hefði hún mögulega ekki sagt neinum frá atvikinu.

„Að ég, 23 ára, hafi hugsað á þessu augnabliki sem þessi ákveðni botn náðist að ég væri að fara að deyja inni á einhverju klósetti á Grand Hótel,“

sagði Edda í viðtalinu við Vikuna. 

Viðbrögð lögreglu hafi verið að spyrja hvort þau Hjörtur myndu ekki finna út úr þessu sjálf. Árið 2018 segist hún hafa leitað til Bjarkarhlíðar og í framhaldinu rætt aftur við lögreglu sem hafði málsgögnin undir höndum.

Endaði með samningi en ofbeldið hélt áfram

Edda segir lögreglukonan hafa tjáð sér að í dag væri líka litið á atvikið sem tilraun til manndráps sem var áfall fyrir hana að heyra. Hún rifjar upp að hafa mætt í skírn nokkru seinna. Hún segist hafa verið upptekin af því að reyna að halda áfram og láta eins og ekkert hafi gerst eftir atvikið.

„Á myndum er ég skælbrosandi en með klút um hálsinn því ég var enn með mar eftir hendurnar á honum.“

Kæruferli fór af stað eftir árásina 2012 sem endaði með samningi þeirra á milli. Í samkomulaginu fólst að Hjörtur viðurkenndi fulla ábyrgð í málinu og bað Eddu Sif afsökunar. 

Í yfirlýsingu sem lögmenn Hjartar og Eddu sendu sameiginlega á fjölmiðla sagði að Hjörtur harmaði mjög framkomu sína umrætt kvöld sem hafi með öllu verið óafsakanleg. Edda muni afturkalla kæru sína hjá lögreglu í málinu. Aðilar séu sammála um að tjá sig ekki frekar um málið.

Áreitti hana í Rússlandi þar sem karlalandsliðið var að keppa

Árið 2018 fór karlalandsliðið til Rússlands að keppa á Heimsmeistarmótinu í knattspyrnu. Fjölmennur hópur blaðafólks fór utan og gisti á hóteli í nágrenni við hótel landsliðsins. Edda var hluti af teymi Ríkisútvarpsins. 

Hjörtur bættist óvænt í hópinn skömmu fyrir mót, en hann stýrði þá útvarpsþætti um íþróttir á X-inu 977.  Edda lýsir því í viðtalinu við Vikuna hvernig henni hafi brugðið við þau tíðindi.. Hún hafi upplýst Knattspyrnusamband Íslands um áhyggjur sínar en niðurstaðan var sú að þau gistu á sama hóteli og allur hópurinn, þó ekki á sömu hæð. 

Edda lýsir áreiti af hendi Hjartar í Rússlandi sem náði hápunkti kvöld eitt þegar hluti af hópnum skellti sér út á lífið. Því lauk með því að fulltrúar KSÍ, þeirra á meðal öryggisstjóri KSÍ á þeim tímapunkti, Víðir Reynisson, mætti á hótelið.

Daginn eftir mætti Hjörtur á blaðamannafund landsliðsins í aðdraganda þriðja og síðasta leiks liðsins í Rússlandi. Þar reyndi hann að nálgast Eddu Sif að því er virtist viðstöddum til að biðjast afsökunar á hegðun sinni á blaðamannafundi landsliðsins. Samstarfsfólk Eddu á RÚV steig inn í á þeim tímapunkti.  Fór svo að Hjörtur var sendur heim frá Rússlandi af vinnuveitendum sínum hjá Sýn þann daginn en þá hafði verið kvartað undan veru hans af forsvarsmönnum RÚV.

Hjörtur vildi ekki tjá sig um frásögn Eddu Sifjar þegar eftir því var leitað í dag. Hann sagði í samtali við Fréttablaðið árið 2018, eftir að hafa verið sendur heim frá Rússlandi, hafa hrasað eftir erfiða baráttu við áfengissjúkdóminn. 

„Upp tóku sig gömul veikindi sem ég hafði haldið í skefjum í rúm fjögur ár. Ég hrasaði illilega sem leiddi af sér óæskilega hegðun. Ég gleymdi mér í þessari stöðugu baráttu við áfengissjúkdóminn og fékk það harkalega í bakið. HM ferð mín var því stytt um þrjá daga enda engin leið til að takast á við veikindi mín hér í Rússlandi,“ sagði Hjörtur við Fréttablaðið á þeim tíma.

Ítarlegt viðtal Vikunnar við Eddu Sif Pálsdóttur er að finna í nýjasta tölublaði Vikunnar eða á vef Birtings.


Tengdar fréttir

Edda hætt við að kæra Hjört

Samkomulag hefur tekist milli Hjartar Júlíusar Hjartarsonar og Eddu Sifjar Pálsdóttur. Í samkomulaginu felst að Hjörtur hefur viðurkennt fulla ábyrgð í þessu máli og beðið Eddu Sif fyrirgefningar. Í yfirlýsingu sem lögmenn Hjartar og Eddu sendu sameiginlega á fjölmiðla segir að Hjörtur harmi mjög framkomu sína umrætt kvöld sem hafi með öllu verið óafsakanleg. Edda muni afturkalla kæru sína hjá lögreglu í málinu. Aðilar séu sammála um að tjá sig ekki frekar um málið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×