Enski boltinn

Jón Daði kom inn af bekknum og bjargaði stigi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jón Daði fagnar marki dagsins með liðsfélögum sínum.
Jón Daði fagnar marki dagsins með liðsfélögum sínum. Twitter@OfficialBWFC

Jón Daði Böðvarsson er heldur betur að finna sig vel hjá Bolton Wanderers. Hann sneri til baka úr landsleikjahléinu og hóf leik dagsins gegn Wigan Athletic á bekknum. Hann kom inn af bekknum í síðari hálfleik og skoraði jöfnunarmark gestanna í 1-1 jafntefli.

James McClean kom heimamönnum í Wigan yfir snemma leiks og var staðan 1-0 í hálfleik. Þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik var Jón Daði sendur á vettvang. Bolton hélt áfram að senda sóknarsinnaða menn inn á og það bar árangur á 84. mínútu.

Will Aimson átti þá fyrirgjöf frá hægri, Jón Daði stökk hæst í teignum og stýrði knettinum í netið. Frábært jöfnunarmark hjá íslenska landsliðsframherjanum og staðan orðin 1-1. 

Fleiri urðu mörkin ekki og liðin þurftu því að sættast á eitt stig á mann. Ásættanlegt stig fyrir gestina þar sem Wigan er í 2. sæti deildarinnar.

Eftir leikinn er Bolton í 11. sæti með 59 stig eftir 40 leiki. Liðið á enn möguleika á að komast í umspil um sæti í B-deildinni á næstu leiktíð en þeir möguleikar eru ekki miklir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×