Enski boltinn

Styttist í að Ten Hag verði til­kynntur sem nýr þjálfari Man United

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ten Hag verður vonandi hressari á hliðarlínunni á Old Trafford.
Ten Hag verður vonandi hressari á hliðarlínunni á Old Trafford. EPA-EFE/MAURICE VAN STEEN

Allt bendir til þess að Erik ten Hag, þjálfari Ajax, verði næsti þjálfari Manchester United. Hann hefur verið í umræðunni allt frá því Ole Gunnar Solskjær var látinn taka poka sinn og stefnir í að hann taki við fyrr heldur en síðar.

Eftir að Solskjær fékk sparkið fyrr á leiktíðinni var hinn 52 ára gamli Ten Hag með fyrstu nöfnunum sem nefnd voru til sögunnar. Hann hefur náð aðdáunarverðum árangri með Ajax á undanförnum árum og heillar það forráðamenn Man United.

Mauricio Pochettino, þjálfari París Saint-Germain, var hitt nafnið sem var hvað mest í umræðunni. Virðist sem allir fyrrverandi – og núverandi – leikmenn Man United vilji fá hann til starfa. Mögulega hefur það haft áhrif á forráðamenn félagsins.

Samkvæmt heimildum breska ríkisútvarpsins telja þeir sem stjórna á Old Trafford að Ten Hag passi betur inn í teymið sem hefur verið búið til eftir að Ed Woodward, fyrrverandi framkvæmdastjóri félagsins, ákvað að róa á önnur mið.

Ralf Rangnick, núverandi þjálfari liðsins, yrði í ráðgjafahlutverkinu sem hefur verið svo oft rætt um. Darren Fletcher yrði svo hálfgerður yfirmaður knattspyrnumála ásamt John Murtough.

Það virðist sem Ten Hag verði ekki kynntur fyrr en ljóst er hvort Ajax vinni hollenska meistaratitilinn eður ei en félagið er sem stendur með fjögurra stiga forskot á PSV þegar sex umferðir eru eftir. Fari svo að Ajax vinni deildina þá yrði það í þriðja sinn undir stjórn Ten Hag. 

Liðið hefur einnig unnið bikarkeppnina tvívegis og svo var það hársbreidd frá því að komast í úrslit Meistaradeildar Evrópu vorið 2019 þegar það féll úr leik gegn Tottenham Hotspur í undanúrslitum.

Talið er að reynslumikill aðstoðarþjálfari verði einnig ráðinn til að aðstoða Ten Hag. Helst einhver sem þekkir Manchester United. René Meulensteen og Steve McClaren hafa verið nefndir til sögunnar.


Tengdar fréttir

Ten Hag steinhissa á Manchester United

Erik ten Hag hefur látið Manchester United vita að peningar eru alls ekkert vandamál í tengslum við hugsanlegt samningstilboð félagsins til hans sem næsti knattspyrnustjóri liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×