Ekki bara það, heldur hékk meðal þeirra úr loftinu hin goðsagnarkennda Harrier, sem þurfti enga flugbraut til að takast á loft. Allt lék í höndunum á þessum vini mínum, sem smíðaði flugvélalíkönin af mikilli natni og ástríðu.
Mikið öfundaði ég hann af þessum hæfileikum. Á meðan ég gat bara lesið um flugorrusturnar í seinna stríði, þá smíðaði hann heilu herflugvélarnar. Þessa gætti líka í skólanum, þar sem hann var iðulega í öðru herbergi en aðrir nemendur, af því að alvöru verkfærin voru þar. Á meðan ég útskýrði fyrir foreldrum mínum að trékubbur væri í raun höfrungur, þá fór hann heim með skákborð á fótum, sem var sannkölluð völundarsmíði.
Ég man aldrei eftir að skólastjórinn hafi gert mikið úr þessum hæfileikum vinar míns, hann hafi verið skilgreindur með úrvalsnemendum eða kallaður upp á svið og fengið viðurkenningarskjal.
Hver skara fram úr?
Ef til vill spilar þar inn í, að landlægt virðist vera í íslenskum grunnskólum, að ýta ekki sérstaklega undir með þeim sem skara fram úr á sínu áhugasviði. Mér skilst að dræman árangur íslenskra skólabarna í Pisa-könnunum megi að hluta skýra með því að það vanti úrvalsnemendurna. Almennt sé getan svipuð hjá skólakrökkum hér á landi og erlendis – það séu bara færri sem skara fram úr. Með þessu er ég ekki að leggja til tossabekki, eins og í gamla daga, heldur að meira sé gert til að ýta undir helstu styrkleika, þó að krakkarnir séu að öðru leyti samferða í gegnum menntakerfið.
Ég man aldrei eftir að skólastjórinn hafi gert mikið úr þessum hæfileikum vinar míns, hann hafi verið skilgreindur með úrvalsnemendum eða kallaður upp á svið og fengið viðurkenningarskjal.
En svo fæ ég ekki varist þeirri hugsun, að áherslan á bóknámið hafi verið svo yfirþyrmandi, að smiðsgáfan hafi farið fyrir lítið hjá þessum vini mínum. Fyrir áramót fékk hann einn tíma á viku í smíði, en eftir áramót fór sá tími í að prjóna upphafsstafina sína í kodda. Það var öll handavinnan.
Á sama tíma og lítil rækt var lögð við þessa eðlisgáfu vinar míns, sem hefði eins getað smíðað bíl á skólalóðinni, þá lögðu samviskusamir kennarar allt kapp á að troða í hann setningarfræði í samræmi við námsskrá, svo hann varð útbelgdur af aðalorðum forsetningarliða, liðgerðarreglum og hríslumyndum, hliðstæðum fallorðum og afturbeygðum fornöfnum.
Ég hef jafnan haft áhuga á íslensku og átta mig á gildi setningarfræði, einkum þegar verið er að læra ný tungumál, en fyrr má nú rota en dauðrota. Ætti það ekki að vera megintilgangur íslenskukennslu að fá nemendur til að lesa og skrifa, njóta tungumálsins og hafa af því gagn, fremur en að velta þeim upp úr indóevrópsku hljóðfærslunni.
Nemendur smíða sófa
Og er ekki full ástæða til að leggja meira upp úr verklegu námi í grunnskóla, að minnsta kosti fyrir áhugasama? Mér er minnisstæð saga sem Guðrún Hafsteinsdóttir sagði eitt sinn í ávarpi á Iðnþingi af Magnúsi Gíslasyni húsverði í grunnskólanum í Hveragerði. Hann skynjaði það á nokkrum ungum piltum, sem þurftu að finna orku sinni farveg, að það tækist ekki alveg í dönskutímum. Hann lagði því leið sína í áhaldahúsið, náði í bílhræ, setti það í litla skemmu og fékk þá til að taka það í sundur, laga það og sprauta brettin. Í raun voru þeir í tímum hjá húsverðinum, sem bjó svo vel að vera líka smiður.
Og spurningin er, hvort það sé ekki ráðlegt að leggja meira upp úr því að finna fjölbreytta styrkleika nemenda í grunnskólum og byggja á þeim, í stað þess að ýta öllum áfram sömu námsskrárbrautina.
Svo gerði hann gott betur og fékk strákana til að smíða sófa í sameiginlegt rými nemenda. „Þarna lærði Hafsteinn sonur minn, fimmtán ára gamall, að smíða húsgagn með vinum sínum – og þeir eru stoltir af því að enn er verið að nota sófann,“ sagði Guðrún við mig í gær þegar hún rifjaði þetta upp.
Hafsteinn varð síðar vélstjóri, lykilmaður í slökkviliðinu í Árnessýslu og björgunarsveitinni, annar úr vinahópnum varð flugvirki og þriðji búfræðingur. „Það sem mér þótti merkilegt við þessa sögu, er að þarna hafði húsvörðurinn í skólanum í raun dýpri skilning en aðrir langskólagengnir á þörfum þessara drengja,“ bætti Guðrún við.
Það skiptir máli að kunna til verka. Og spurningin er, hvort það sé ekki ráðlegt að leggja meira upp úr því að finna fjölbreytta styrkleika nemenda í grunnskólum og byggja á þeim, í stað þess að ýta öllum áfram sömu námsskrárbrautina – sem nota bene er smíðuð af fólki úr bóknámsfögum?
„Á ég að gera það?“ spurði Indriði í óborganlegum þáttum Fóstbræðra og fórnaði höndum. Í þessum pistlum sem birtast vikulega á laugardögum verður ómakið tekið af Indriða, hlustað eftir banki í ofninum og hver veit nema einhver taki að sér að „gera það“ – ganga í að kippa hlutunum í lag. Allar hugmyndir, ábendingar og athugasemdir vel þegnar.