Þetta kemur fram í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu. Katrín segir að vitaskuld hafi verið umræður um fyrirkomulag á sölu hluta í Íslandsbanka þar sem ráðherrar lýstu skoðunum sínum. En:
„Enginn ráðherra óskaði eftir að færa neitt til bókar. Hvorki þegar málið var rætt í ríkisstjórn né ráðherranefnd um efnahagsmál,“ segir í svari Katrínar.
Ummæli Lilju D. Alfreðsdóttur viðskiptaráðherra, sem birtust í Morgunblaðinu í dag, hafa vakið mikla athygli. En þau Katrín, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra sitja í ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins.
„Ég var ekki hlynnt þeirri aðferðafræði sem varð ofan á við söluna á bréfum í Íslandsbanka. Vildi almennt útboð en ekki að bréfin yrðu seld til valins hóps fjárfesta. Þessum sjónarmiðum mínum kom ég skýrt á framfæri í aðdraganda útboðsins,“ sagði Lilja í samtali við Morgunblaðið. Hún sagði jafnframt að ekki sé hægt að skella skuldinni á Bankasýsluna, ábyrgðin hljóti að vera stjórnmálamanna sem tóku ákvörðunina, en þar er þá um að ræða Bjarna. Og þá tók Lilja fram að það kæmi ekki til greina í sínum huga að selja Landsbankann.
Katrín segir það einfaldlega svo að það hafi aldrei staðið til að selja Landsbankann. „Það hefur legið fyrir frá því að ríkisstjórnin var mynduð í fyrra sinn. Ég tel eðlilegt að geyma allar frekari hugmyndir um sölu á hlutum í Íslandsbanka.“
Katrín segir hennar afstöðu hafa verið þá að ferlið yrði eins gagnsætt og skýrt og upplýsingargjöf væri góð. „Jafnframt lagði ég áherslu á að þingið fengi nægilegan tíma til að skoða málið enda taldi ég að það þyrfti hann til að kynna sér þessa aðferð. Ennfremur - að lokinni sölu - lagði ég mikla áherslu á birtingu lista kaupenda sem fjármálaráðherra birti um leið og hann barst ráðuneytinu.“