Grín og glens
Ólafssynirnir eru ekki ókunnir því að vera með grín og glens saman en þeir leiddu saman hesta sína í skemmtiþættinum 12:00 þegar þeir gengu í Verzlunarskóla Íslands. Anton Darri hannar ásýndina í kringum nýja hlaðvarpið. Aron kom með tilkynningu á samfélagsmiðli sínum þar sem stendur meðal annars:
„Þá er komið að tímamótum í lífi okkar Arnars Þórs þar sem við munum með öllu móti reyna að gleðja landann með skemmtilegu sprelli á sunnudögum.“
Skemmtileg verkefni
Báðir eru þeir að fást við ýmis skemmtileg verkefni utan hlaðvarpsins. Arnar Þór er einnig með hlaðvarpið Pyngjan sem fjallar um fjármál og Aron Már er leikari og hefur nýlega verið í Verbúðinni og Svörtu söndum.
Kanínuholur, símahrekkir og fastir liðir
Í samtali við Vísi sagði Arnar Þór skemmtilega fasta liði vera í vinnslu og bíða þeir spenntir eftir að deila því með hlustendum sínum. Einnig segir hann aldrei að vita nema góða gesti beri að garði eða að þeir skelli í útvarpsleikrit og bætir við að lokum:
„Við erum bara gríðarlega þakklátir fyrir móttökurnar og viðbrögðin sem við höfum verið að fá og bíðum spenntir eftir framhaldinu“