Enski boltinn

Jón Daði dýrkaður og dáður hjá Bol­ton

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jón Daði skorar annað mark sitt um helgina.
Jón Daði skorar annað mark sitt um helgina. Twitter@OfficialBWFC

Landsliðsframherjinn Jón Daði Böðvarsson átti frábæra innkomu um helgina er hann kom inn af bekknum hjá Bolton Wanderers og skoraði tvö mörk í 3-1 sigri á Accrington Stanley. Gaf hann sér svo tíma til að leika við ungan aðdáanda Bolton-liðsins á leiðinni heim.

Jón Daði hefur heldur betur lifnað við síðan hann færði sig um set á Englandi og hóf að spila með Bolton Wanderers. Það hefur sést sérstaklega á leikjum íslenska landsliðsins en Jón Daði hefur verið jafnbesti leikmaður liðsins í undanförnum verkefnum.

Framherjinn hengdi ekki haus er hann hóf leik helgarinnar á varamannabekknum heldur kom hann inn í stöðunni 1-1 og skoraði tvívegis í 3-1 sigri. Það fyrra var með þrumuskoti úr þröngu færi. Svona klára bara framherjar sem eru með sjálfstraustið í botni.

Eftir leik sagði Jón Daði að það eina sem hann væri ósáttur með væri að Bolton væri ekki nær umspilssætunum. Bolton er sem stendur í 10. sæti með 67 stig, tíu stigum fyrir neðan Sunderland sem er í síðasta umspilssætinu.

Er Jón Daði var heim á leið eftir leik virðist ungur aðdáandi hafa náð athygli hans. Náðist skemmtilegt myndband þar sem Jón Daði sést skjóta nokkrum boltum á unga stelpu sem hefur ólm viljað reyna eitthvað sem markverði Accrington Stanley tókst ekki, að verja skot frá Jóni Daða.

„Jón Daði að taka vítaspyrnur með barnabarni vinar míns fyrir utan leikvanginn. Þetta félag,“ segir í Twitter-færslu frá stuðningsmanni Bolton Wanderers. 

Jón Daði er ekki fyrst Íslendingurinn sem finnur fjöl sína hjá Bolton Wanderers. Liðið á góðu samstarfi við Ísland en Eiður Smári Guðjohnsen, Guðni Bergsson og Grétar Rafn Steinsson léku allir með liðinu þegar það var upp á sitt besta. 

Það er eflaust fjarlægur draumur hjá Jóni Daða að leika í ensku úrvalsdeildinni með félaginu en takist honum að hjálpa því upp í B-deildina á nýjan leik er ljóst að hann yrði í guðatölu hjá stuðningsfólki liðsins líkt og þríeykið hér að ofan.

Ef til vill má færa rök fyrir því að hann sé það nú þegar ef marka má þetta stórkostlega lag sem samið var um Jón Daða fyrr á árinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×