Liverpool á toppinn eftir stórsigur í stórleiknum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Liverpool vann afar öruggan sigur gegn Manchester United í kvöld.
Liverpool vann afar öruggan sigur gegn Manchester United í kvöld. Clive Brunskill/Getty Images

Liverpool vann öruggan 4-0 sigur gegn Manchester United í stórleik kvöldsins í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Með sigrinum lyfti Liverpool sér í það minnsta tímabundið á toppinn.

Leikurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið, enda eru liðsmenn Liverpool í harðri baráttu um enska deildarmeistaratitilinn á meðan leikmenn United eltast við sæti í Meistaradeild Evrópu.

Það var þó nokkuð fljótt ljóst hvort liðið myndi taka stigin þrjú því heimamenn í Liverpool, og þá sérstaklega framherjarnir þrír, léku á alls oddi.

Luis Diaz kom heimamönnum í forystu strax á fimmtu mínútu eftir stoðsendingu frá Mohamed Salah áður en Salah skoraði sjálfur eftir stoðsendingu frá Sadio Mané rúmum stundarfjórðungi síðar.

Staðan var því 2-0 þegar gengið var til búningsherbergja, en Sadio Mané breytti stöðunni í 3-0 þegar rúmar tuttugu mínútur voru til leiksloka eftir stoðsendingu frá Luis Diaz.

Diogo Jota kom svo inn á sem varamaður á 70. mínútu fyrir Liverpool og hann lagði upp fjórða og seinasta mark leiksins fyrir Mohamed Salah.

Niðurstaðan varð því öruggur 4-0 sigur Liverpool og liðið fær sér sæti í efsta sæti deildarinnar. Liverpool er nú með 76 stig eftir 32 leiki, tveimur stigum meira en Manchester City sem situr í öðru sæti, en á leik til góða.

Manchester United situr hins vegar í sjötta sæti deildarinnar með 54 stig eftir 33 leiki, þremur stigum frá Meistaradeildarsæti.


Tengdar fréttir

Ronaldo ekki með gegn Liverpool í kvöld

Enska knattspyrnufélagið Manchester United staðfesti á heimasíðu sinni í dag að Cristiano Ronaldo yrði ekki með í leiknum við Liverpool í kvöld eftir að sonur hans lést við fæðingu í gær.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira