Innlent

Magnús Hlynur kosinn Sunn­lendingur ársins 2021

Árni Sæberg skrifar
Magnús Hlynur er Sunnlendingur ársins 2021.
Magnús Hlynur er Sunnlendingur ársins 2021. Sunnlenska.is

Magnús Hlynur Hreiðarsson, fréttamaður Stöðvar 2 á Suðurlandi, var kosinn Sunnlendingur ársins 2021 af lesendum sunnlenska.is.

Að því er segir í frétt sunnlenska.is fór kosningin fram í janúar síðastliðnum en vegna heimsfaraldurs Covid-19 var ekki unnt að afhenda Magnúsi Hlyni viðurkenninguna fyrr en í dag, sumardaginn fyrsta.

 „Er þetta ekki svona sumardagsins fyrsta apríl gabb?“ spurði Magnús Hlynur þegar honum voru færðar gleðifréttirnar. „Ég ætlaði ekki að trúa þessu, þetta er bara æðislegt og ég er ofboðslega stoltur og ánægður og þakka kærlega fyrir mig. Þetta er mikill heiður,“ hefur sunnlenska.is eftir honum.

Hafði betur gegn öflugri samkeppni

Góð þátttaka var í kosningu um Sunnlending ársins 2021 og höfðu kjósendur milli öflugra einstaklinga að velja. Magnús Hlynur hafði betur gegn Ómari Inga Magnússyni, handboltamanni og besta manni íslenska landsliðsins á Evrópumótinu í handbolta sem fram fór í byrjun þessa árs, sem hreppti annað sætið. 

Í þriðja sæti lenti Guðríður Aadnegard, námsráðgjafi og umsjónarkennari í Hveragerði, fyrir baráttu sína í eineltismálum.

Þeir sem ekki eru kunnugir störfum Magnúsar Hlyns og furða sig á því hvernig fréttamaður geti verið betri Sunnlendingur en einn besti handboltamaður þjóðarinnar, geta kynnt sér málið betur í myndbandinu hér að neðan:

Vísir og Stöð 2 eru í eigu Sýnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×