Fótbolti

Superman-búningur Buffons kostaði Parma tvær milljónir

Sindri Sverrisson skrifar
Gianluigi Buffon hefur varið mark Parma í vetur.
Gianluigi Buffon hefur varið mark Parma í vetur. Getty/Giuseppe Bellini

Ítalska knattspyrnufélagið Parma neyddist til að greiða bandaríska kvikmyndafyrirtækinu Warner Bros 15.000 evrur, jafnvirði 2 milljóna króna, fyrir að nota Superman-merkið í leyfisleysi.

Parma greindi frá endurkomu síns dáða sonar, markvarðarins Gianluigi Buffon, með skemmtilegu myndbandi í fyrrasumar. Þar sást Buffon opna litla fjársjóðskistu og taka meðal annars upp Superman-bol áður en hann tilkynnti að hann væri mættur aftur.

Buffon, sem er 44 ára, var að snúa aftur til Parma tuttugu árum eftir að hafa orðið dýrasti markvörður sögunnar þegar hann var seldur frá Parma til Juventus. 

Superman-bolurinn var í kistunni vegna þess að Buffon hefur verið kenndur við ofurhetjuna eftir að hann klæddist þannig bol þegar hann lék með liðinu um aldamótin, og hann fagnaði ítalska bikarmeistaratitlinum með Parma í bolnum árið 1999.

La Gazzetta dello Sport greinir frá því að forráðamenn Warner Bros, sem eiga einkaréttinn að Superman-merkinu, hafi krafið Parma um greiðslu vegna málsins og samkomulag náðst um að sú upphæð næmi 15.000 evrum.

Parma varð gjaldþrota og stofnað að nýju í ítölsku D-deildinni árið 2015. Liðið sneri aftur í A-deildina árið 2018 en er nú í B-deildinni og á ekki möguleika á að komast upp um deild í vor, þrátt fyrir að hafa „ofurhetjuna“ Buffon í markinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×