Lífið

Emm­sjé Gauti og Herra Hnetu­smjör gefa út nýtt lag: „Það er alveg kominn tími á smá fokking stemningu“

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Tónlistarmennirnir Emmsjé Gauti og Herra Hnetusmjör gáfu út lagið Hálfa milljón á miðnætti.
Tónlistarmennirnir Emmsjé Gauti og Herra Hnetusmjör gáfu út lagið Hálfa milljón á miðnætti.

Tveir vinsælustu rapparar landsins, þeir Emmsjé Gauti og Herra Hnetusmjör leiða saman hesta sína í laginu Hálfa milljón sem kom út í dag. Því er spáð að lagið verði einn af stærri sumarsmellum ársins 2022.

Tvíeykið gaf síðast út lag saman árið 2016. Það var stórsmellurinn Þetta má sem er í dag að nálgast tvær milljónir spilanir á Spotify.

Emmsjé Gauti og Herra Hnetusmjör sömdu nýja lagið ásamt einum fremsta lagahöfundi Íslands, Þormóði Eiríkssyni, sem samið hefur hvern slagarann á fætur öðrum.

Emmsjé Gauti og Herra Hnetusmjör gáfu síðast út lag saman árið 2016.

„Gauti mætti bara með þetta viðlag tilbúið til mín. Þetta var bara eitthvað sem hann var búinn að vera raula og við bara hentum í beat eins fljótt og við gátum og sendum þetta á Árna,“ sagði Þormóður í viðtali í Brennslunni í morgun.

Árni eða Herra Hnetusmjör var ekki lengi að samþykkja aðild sína að laginu og hittust þeir allir nokkrum dögum seinna til þess að vinna lagið.

Klippa: Emmsjé Gauti og Herra Hnetusmjör gefa út sumarsmell

Síðan hafa þó liðið nokkur ár, því í hvert skipti sem þeir ætluðu að gefa lagið út skall á ný Covid-bylgja. Nú hefur lagið loksins litið dagsins ljós og fær það góðar viðtökur á streymisveitunni Spotify.

„Þetta er algjört stemningslag og það er alveg kominn tími á smá fokking stemningu,“ segir Herra Hnetusmjör um lagið sem má hlusta á hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×