Enski boltinn

Pogba ekki lengur hluti af What­sApp hóp Man Utd

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Paul Pogba er á leiðinni frá Man Utd í sumar.
Paul Pogba er á leiðinni frá Man Utd í sumar. EPA-EFE/PETER POWELL

Franski miðvallarleikmaðurinn Paul Pogba verður samningslaus í sumar og það bendir allt til þess að hann verði áfram í herbúðum Manchester United. Þó tímabilið sé enn í gangi hefur Pogba nú þegar yfirgefið WhatsApp hóp liðsins.

Hinn 29 ára gamli Pogba hefur ekki sýnt sínar bestu hliðar á leiktíðinni og er sem stendur á meiðslalistanum. Talið er að hann hafi nú þegar spilað sinn síðasta leik fyrir Man Utd þar sem hvorki leikmaðurinn né félagið vilja halda samstarfinu áfram.

Nú keppast fjölmiðlar erlendis að birta fréttir þess efnis að Pogba hafi nú þegar yfirgefið WhatsApp hóp leikmanna liðsins. WhatsApp er samfélagsmiðill og eru slík hópspjöll einkar algeng meðal liða í ensku úrvalsdeildinni. Þýðir það fátt annað en ferli hans hjá félaginu er endanlega lokið.

Alls spilaði Pogba 233 leiki fyrir Man United frá 2016. Í þeim hefur hann skorað 39 mörk og lagt upp 51 til viðbótar.

Ekki er komið í ljós hvert ferðinni er heitið hjá Pogba en talið er að hann vilji fara aftur til Juventus á Ítalíu eða þá til Real Madríd á Spáni. Man United fékk Pogba sumarið 2016 frá Juventus á 89 milljónir punda.

Sex árum síðar virðist sem Pogba sé á leiðinni frá félaginu á frjálsri sölu í annað sinn á ferlinum. Síðast fór hann til Juventus, það gæti því vel verið að sagan endurtaki sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×