Björgunarskipið Ocean Viking er hluti af þeirri mannúðaraðstoð sem veitt er flóttafólki við Miðjarðarhaf og samvinnuverkefni fjölmargra landsfélaga Rauða krossins sem aðstoða fólk á flótta víðsvegar í löndum Afríku, í Mið-Austurlöndum og Evrópu.
Í frétt frá Rauða krossinum segir að sá sorglegi atburður hafi orðið við seinni björgunina að tólf einstaklingar hafi farist eftir að gúmmíbáti var siglt frá Líbíu. Fimmtán einstaklingar féllu í sjóinn vegna þrengsla og öldugangs, þremur var bjargað en hinir tólf drukknuðu. Atvikið varð áður en skipverjar á Ocean Viking sáu bátinn.
„Líkt og hægt er að ímynda sér upplifir fólkið erfiðar tilfinningar í kjölfar hræðilegra atburða sem þessa og teymi Rauða krossins veitir þeim sálrænan stuðning,“ segir í frétt Rauða krossins.
Hér má lesa um aðgerðir Rauða krossins á Miðjarðarhafi.
Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.