Enski boltinn

Klopp vonar að tíðindin sannfæri Salah sem var valinn bestur

Sindri Sverrisson skrifar
Mohamed Salah er markahæstur í ensku úrvalsdeildinni og með flestar stoðsendingar.
Mohamed Salah er markahæstur í ensku úrvalsdeildinni og með flestar stoðsendingar. Getty/Chris Brunskill

Egyptinn Mohamed Salah var í dag valinn leikmaður ársins í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta af samtökum fótboltafréttamanna í Englandi.

Salah, sem er 29 ára gamall, hefur átt stórkostlegt tímabil með Liverpool sem enn á möguleika á að vinna fernuna.

Í ensku úrvalsdeildinni er Salah efstur á lista yfir flest mörk og flestar stoðsendingar, með 22 mörk og 13 stoðsendingar í aðeins 31 leik. Liverpool er aðeins stigi á eftir toppliði Manchester City þegar fimm umferðir eru eftir.

Óvissa ríkir enn um framtíð Salah hjá Liverpool en hann hefur ekki viljað skrifa undir nýjan samning við félagið og núgildandi samningur hans rennur út eftir rúmt ár.

Knattspyrnustjórinn Jürgen Klopp gerði hins vegar nýjan samning við Liverpool sem tilkynnt var um í gær og verður hjá félaginu til ársins 2026 hið minnsta. 

Klopp var spurður að því á blaðamannafundi í dag hvort að þessi ákvörðun sín myndi sannfæra Salah og Sadio Mané um að framlengja samninga sína við Liverpool:

„Ég held að þetta sé spurning fyrir strákana. Samband mitt við báða leikmenn er frábært. Ef að þetta er jákvætt merki fyrir strákana þá er það frábært, en ég efast um að þetta ráði úrslitum. En leikmennirnir sem vilja vera hérna áfram vita núna við hverju er að búast,“ sagði Klopp.

Alls hefur Salah skorað 30 mörk og átt 14 stoðsendingar í 44 leikjum í öllum keppnum fyrir deildabikarmeistarana, sem komnir eru í góða stöðu í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu og í úrslitaleik enska bikarsins.

Þetta er í annað sinn sem að Salah hlýtur verðlaunin sem leikmaður ársins hjá samtökum fótboltafréttamanna en hann vann einnig árið 2018. Rúben Dias, miðvörður Manchester City, hlaut nafnbótina í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×