Fótbolti

Inter heldur titilvonum sínum á lífi en Roma missti af Meistaradeildarsæti

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Titilvörn Inter lifir enn.
Titilvörn Inter lifir enn. Alessandro Sabattini/Getty Images

Ítalíumeistarar Inter eru enn í baráttunni um ítalska deildarmeistaratitilinn eftir 2-1 útisigur gegn Udinese í kvöld, en markalaust jafntefli Roma gegn Bologna þýðir að Rómverjar eiga ekki lengur möguleika á sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.

Ivan Perisic kom Ítalíumeisturunum yfir gegn Udinese strax á 12. mínútu þegar hann skallaði hornspyrnu Federico Dimarco í netið.

Það var svo Lautaro Martinez sem tvöfaldaði forystu Inter stuttu fyrir hálfleik. Hann tók þá vítaspyrnu sem hafnaði í stönginni, en fylgdi því eftir og setti boltann í netið í annari tilraun.

Ignacio Pussetto minnkaði muninn fyrir heimamenn þegar tæpar tuttugu mínútur voru til leiksloka, en nær komust þeir ekki og niðurstaðan því 2-1 sigur Inter.

Ítalíumeistararnir sitja í öðru sæti deildarinnar með 75 stig þegar þrjár umferðir eru eftir, aðeins tveimur stigum á eftir nágrönnum sínum í AC Milan sem tróna á toppnum.

Þá skildu Roma og Bologna jöfn 0-0 í kvöld, en úrslitin þýða að Rómverjar eiga ekki lengur möguleika á sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð. Liðið situr í fimmta sæti deildarinnar með 59 stig þegar þrjár umferðir eru eftir, tíu stigum á eftir Juventus sem nú er öruggt með sæti í Meistaradeildinni.

Serie A er hluti af Stöð 2 Sport Erlent sem kostar 3.990 kr. á mánuði. Upplýsingar um beinar útsendingar frá ítalska boltanum má finna hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×