Erlent

Norður-Kóreu­menn skutu enn einni eld­flauginni á loft

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Þetta var fjórtánda tilraunaskot norðanmanna á þessu ári en óljóst er af hvaða gerð flaugin var að þessu sinni.
Þetta var fjórtánda tilraunaskot norðanmanna á þessu ári en óljóst er af hvaða gerð flaugin var að þessu sinni. AP

Yfirvöld í Norður-Kóreu skutu á loft enn einni eldflauginni í nótt. Þetta fullyrða Suður-Kóreumenn og Japanir en flaugin mun hafa lent í sjónum austan við landið.

Tilraunaskotið er gert nokkrum dögum eftir að Kim Jong-un, leiðtogi ríkisins, lýsti því yfir að hraða skuli uppbyggingu kjarnorkuvopnabúrs landsins. Þá hótaði hann því einnig að slíkum vopnum yrði beitt gegn óvinum ríkisins.

Þetta var fjórtánda tilraunaskot norðanmanna á þessu ári en óljóst er af hvaða gerð flaugin var að þessu sinni.

Sérfræðingar í málefnum Norður-Kóreu segja einnig, að því er fram kemur í umfjöllun AP, að ummerki séu um það á gervihnattamyndum að verið sé að undirbúa tilraunasprengingu á kjarnorkuvopni í norðausturhluta landsins. Ef af því verður er um að ræða sjöundu tilraunakjarnorkusprengingu landsins og þá fyrstu frá árinu 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×