Enski boltinn

Arsenal í humátt á eftir Chelsea | Man City felldi Birmingham

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það er alltaf ákveðinn hiti í mannskapnum þegar Arsenal og Tottenham Hotspur mætast.
Það er alltaf ákveðinn hiti í mannskapnum þegar Arsenal og Tottenham Hotspur mætast. Marc Atkins/Getty Images

Tveir leikir fóru fram í ensku úrvalsdeild kvenna í fótbolta. Arsenal vann öruggan sigur á Tottenham Hotspur. Þá er Birmingham City fallið eftir stórt tap gegn Manchester City.

Bethany Mead kom Arsenal yfir strax fjögurra mínútna leik. Við það róaðist heimaliðið aðeins en Skytturnar vissu að þær þyrftu að vinna til að halda í við Chelsea á toppi deildarinnar.

Staðan var 1-0 allt þangað til á 71. mínútu þegar Caitlin Foord tvöfaldaði forystu Arsenal. Foord var svo aftur á ferðinni tæpum tíu mínútum síðar og öruggur 3-0 sigur Arsenal staðreynd.

Það tók Man City dágóða stund að brjótast í gegnum varnarmúr gestanna. Georgia Stanway skoraði fyrsta mark leiksins á 58. mínútu en eftir það opnuðust flóðgáttirnar. Lauren Hemp bætti við öðru marki City á 62. mínútu og Stanway við sínu öðru og þriðja marki heimakvenna örskömmu síðar.

Alanna Kennedy, Chloe Kelly og Laura Coombs bættu svo við mörkum áður en leik lauk, lokatölur því 6-0 Man City í vil. Birmingham er þar með fallið úr deildinni.

Þegar ein umferð er eftir af deildinni er Arsenal í 2. sæti með 52 stig á meðan Chelsea eru á toppi deildarinnar með 53 stig. Man City er svo í 3. sæti með 44 stig.

Chelsea fær Manchester United í heimsókn í lokaumferðinni á meðan Arsenal mætir West Ham United. Hver veit nema íslenska landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir hafi eitthvað með það að gera hvort liðið verði meistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×