Innherji

Sjálfstæðismenn í Reykjavík vilja frysta fasteignaskatta

Hörður Ægisson skrifar
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, segir að við núverandi kerfi hafi sveitarfélög óeðlilegan fjárhagslegan hvata af hækkun húsnæðisverðs.
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, segir að við núverandi kerfi hafi sveitarfélög óeðlilegan fjárhagslegan hvata af hækkun húsnæðisverðs. Vísir/Egill

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík lofar að frysta fasteignaskatta nái flokkurinn að mynda meirihluta í borginni eftir kosningar. Oddviti flokksins segir útspilið viðbragð við verðlagsþróun og vaxtahækkun Seðlabankans í vikunni. Óeðlilegt sé að sveitarfélög hafi fjárhagslega hvata af hækkandi húsnæðisverði.

Á undanförnum tólf mánuðum hefur fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað 22,5 prósent og verið helsti drifkraftur aukinnar verðbólgu.

„Nú þegar reykvísk heimili og atvinnurekendur finna fyrir verðhækkunum á öllum vígstöðvum þurfum við að standa með fólkinu í borginni. Við núverandi kerfi hafa sveitarfélög óeðlilegan fjárhagslegan hvata af hækkun húsnæðisverðs. Þennan hvata viljum við aftengja, frysta innheimta krónutölu og leggja þannig okkar að mörkum til koma böndum á hækkandi útgjöld heimilanna,” segir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, í samtali við Innherja.

Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um 100 punkta í fyrradag – úr 2,75 prósentum í 3,75 prósent – vegna ört versnandi verðbólguhorfa á skömmum tíma. Verðbólgan mælist núna 7,2 prósent og útlit fyrir að hún fari upp fyrir átta prósent síðar á árinu. Seðlabankinn spáir því að hún fari ekki undir þrjú prósent fyrr en seint á árinu 2024.

Þennan óeðlilega hvata viljum við aftengja, frysta innheimta krónutölu og leggja þannig okkar að mörkum til koma böndum á hækkandi útgjöld heimilanna.

Hildur segir orsakir verðbólgu og hækkandi vaxta margvíslegar en að staðan á húsnæðismarkaði vegi þar þungt. Reykjavíkurborg hafi mistekist að sjá til þess að framboð húsnæðis haldi í við fyrirsjáanlega fjölgun íbúa í borginni samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar, að sögn hennar.

Innheimtir fasteignaskattar námu ríflega 22 milljörðum króna árið 2021, og höfðu þá hækkað um tæplega 38 prósent á kjörtímabilinu. Samkvæmt fjárhagsáætlun borgarinnar er gert ráð fyrir annarri eins hækkun á komandi kjörtímabili og að þeir verði samtals um 28,8 milljarðar króna á árinu 2026.

Frystingin er hugsuð í þágu bæði heimila og fyrirtækja í Reykjavík, útskýrir Hildur, enda sé augljóst að atvinnurekendur muni velta verðhækkunum út í verðlag sem hitti að endingu heimilin fyrir.

Heimild: Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2022 til 2026.

Tekjur Reykjavíkurborgar af fasteignagjöldum koma fyrst og fremst frá sköttum á atvinnuhúsnæði en áætlað að þeir muni skila borginni um 15,2 milljörðum á þessu ári á meðan tekjur vegna fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði verða tæplega 5,6 milljarðar. Þá skila skattar á opinbert húsnæði um 3,2 milljörðum króna.

Reykjavíkurborg leggur fasteignaskatta á árlega og eru þeir reiknaðir sem prósentuhlutfall af fasteignamati viðkomandi fasteignar. Þjóðskrá ber ábyrgð á framkvæmd fasteignamats.

Aðspurð segir Hildur borgina hafa það í hendi sér að aðlaga innheimta prósentutölu þannig að krónutalan standi í stað. „Þetta er vel framkvæmanlegt. Allt sem vantar er pólitískur vilji – og hann höfum við Sjálfstæðismenn.”

Aðalhagfræðingur Arion banka hefur sagt að hún telji að hækkanirnar sem nú ganga yfir íbúðamarkaðinn gætu reynst þrálátari en árið 2017. Bankinn spáir því að nafnverð húsnæðis muni hækka um 17,7 prósent á þessu ári og um 6,4 prósent á árinu 2023.

„Ástæðan er sú að greiðslubyrði sem hlutfall af launum er enn mjög lág í sögulegu samhengi. Þetta á bæði við um óverðtryggð lán og verðtryggð, þá sérstaklega verðtryggð lán vegna þess að breytilegir vextir þeirra hafa lækkað að undanförnu,“ sagði Erna Björg Sverrisdóttir í samtali við Innherja í síðasta mánuði.

Kosningar til sveitarstjórna fara fram laugardaginn 14. maí næstkomandi. Samkvæmt síðustu könnun Maskínu, sem var gerð fyrir fréttastofu Stöðvar 2 og sagt frá fyrr í þessum mánuði, þá heldur núverandi fjögurra flokka meirihluti og bætir hann við sig einum borgarfulltrúa, færu úr tólf í þrettán.

Í kosningunum 2018 fékk Sjálfstæðisflokkurinn 30,8 prósent atkvæða en í könnun Maskínu mælist flokkurinn hins vegar nú með 20,7 prósent og fengi fimm borgarfulltrúa í stað átta áður.


Tengdar fréttir

Erum að vinna í haginn fyrir kjarasamninga, segir seðlabankastjóri

„Við höfum tækin sem þarf til að ná niður verðbólgunni og við getum beitt þeim af fullum þunga. Ef við þurfum að gera það í andstöðu við aðila vinnumarkaðarins af því að þeir ætla sér að auka enn á verðbólguna með því að hækka launin meira en hagkerfið þolir þá þýðir það einungis að Seðlabankinn þarf að keyra hagkerfið niður í kreppu,“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í viðtali við Innherja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×