Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri Icelandic Salmon, sem var kynnt í morgun, en tekjuvöxt félagsins má einkum þakka jákvæðri verðþróun á helstu mörkuðum – verð á eldislaxi hefur næstum tvöfaldast á einu ári – auk verulegra bættra gæða og nýtingar í framleiðslu fyrirtækisins.
Icelandic Salmon er skráð á Euronext Growth markaðinn í norsku kauphöllinni og hafa bréf félagsins hækkað um liðlega tvö prósent í viðskiptum í morgun.
Arnarlax jók við starfsemi sína á Suðurlandi í vetur með kaupum á seiðastöð Fjallalax og í janúar síðastliðnum fékk stöðin 100 tonna rekstrarleyfi fyrir seiða- og mateldi á lax og bleikju. Þá hyggst félagið taka í notkun seiðaeldisstöð við Laxabraut í Þorlákshöfn síðar á árinu, og hefur fengist rekstrarleyfi frá Matvælastofnun fyrir alls 900 tonna seiðaeldi þar.
Með tilkomu þessara tveggja seiðaeldisstöðva má búast við að uppskera fyrirtækisins aukist um liðlega 7.000 tonn á ársgrundvelli þegar fullum afköstum hefur verið náð. Þetta mun bæta nýtingu núverandi eldisleyfa fyrirtækisins og styðja við undirbúning nýrra svæða og öflunar nýrra leyfa.
Í uppgjörinu kemur fram að eftirspurn eftir hágæða laxaafurðum hafi aukist í Bandaríkjunum. Með tilkomu nýs vörumerkis Arnarlax hefur verð á afurðum þess hækkað og framlegð fyrirtækisins aukist á þeim mörkuðum sem það selur til. Þrátt fyrir mikinn vöxt á Bandaríkjamarkaði, þar sem næstum 90 prósent afurðanna voru flutt sjóleiðis á fjórðungnum, þá eru Evrópulönd enn stærstu kaupendurnir á laxi frá Arnarlaxi.
Björn Hembre, forstjóri Icelandic Salmon og Arnarlax, segir að áhersla félagsins á að bæta líffræðilega þætti framleiðslunnar í sjónum, einkum til að minnka áhættu yfir vetrarmánuðina, virðist hafa skilað árangri.
„Afföll eru orðin mun minni jafnvel þó við höfum lent í áskorunum á tímabilinu á stöku stað. Þetta eru spennandi tímar hjá fyrirtækinu og ég hlakka til að upplýsa um margt sem er í pípunum hjá okkur. Við njótum þess að vera búin að staðsetja vörumerkið okkar á réttan hátt á sterkustu mörkuðunum. Kjarni vörumerkisins liggur í gæðum framleiðslunnar, upprunans og þeirri miklu vinnu sem við höfum lagt í markaðs- og sölumálin á síðustu misserum,“ segir Björn.