Innlent

Segir félagslegt húsnæði skilyrði og útilokar Viðreisn

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Oddviti Sósíalistaflokks Íslands útilokar meirihlutasamstarf með Sjálfstæðisflokki og Viðreisn.
Oddviti Sósíalistaflokks Íslands útilokar meirihlutasamstarf með Sjálfstæðisflokki og Viðreisn.

Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokks Íslands, segist ekki geta hugsað sér að vinna í meirihlutasamstarfi með Viðreisn og hún setur aukið félagslegt húsnæði sem skilyrði.

Fyrstu tölur í Reykjavík sýna skínandi góða kosningu fyrir Sósíalistaflokkinn en samkvæmt þeim er flokkurinn með tvo menn inni í borgarstjórn og er í lykilstöðu andspænis meirihlutamyndun í borginni.

Fyrstu tölur sýna að meirihlutinn er fallinn og ef lokatölur verða á þessa leið er ljóst að leita þarf í nýtt meirihlutamynstur. Sanna var spurð hvort hún gæti hugsað sér að ganga inn í núverandi meirihlutasamstarf.

„Við höfum alltaf sagt að miðað við núverandi stöðu – og ég á auðvitað eftir að ræða við mitt fólk – sé eðlilegast að nýfrjálshyggjan færi út, Viðreisn út og félagshyggjan inn, það er að segja Sósíalistar.“

Sanna sagði flokkana tvo einfaldlega hafa ólíka hugmyndafræði í sinni nálgun. „Þannig að ég get ekki séð að Sósíalistar og Viðreisn séu að fara að vinna saman að því að setja saman meirihlutasáttmála.“

Sanna segir að Sósíalistaflokkurinn geri skilyrði fyrir meirihlutasamstarfi.

„Það eru um 900 á biðlista á eftir félagslegri íbúð þannig að við myndum ekki sætta okkur við að það yrðu einungis keyptar 600 íbúðir hjá Félagsbústöðum. Það þarf að ná til alls fólksins sem er á biðlista.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×