Innlent

Sjálf­stæðis­menn í við­ræður við N-lista um nýjan meiri­hluta í Rang­ár­þingi eystra

Atli Ísleifsson skrifar
Anton Kári Halldórsson, oddviti Sjálfstæðismanna og fyrrverandi sveitarstjóri Rangárþings eystra.
Anton Kári Halldórsson, oddviti Sjálfstæðismanna og fyrrverandi sveitarstjóri Rangárþings eystra. Vísir/Magnús Hlynur

Sjálfstæðismenn í Rangárþingi eystra ætla að hefja formlegar viðræður um meirihlutasamstarf við N-lista Nýja óháða listans.

Þetta staðfestir Anton Kári Halldórsson, oddviti Sjálfstæðismanna og fyrrverandi sveitarstjóri, í samtali við Vísi. Sjálfstæðismenn hafa verið í samstarfi við Framsóknarmenn í sveitarfélaginu síðustu fjögur ár. 

Listar Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna fengu báðir þrjá menn kjörna í kosningunum á laugardag og Nýi óháði listinn einn. Samsetning sveitarstjórnar Rangárþings eystra er því sú sama og verið hefur.

Anton Kári segir að fyrsti formlegi fundurinn milli fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Nýja óháða listans verði í kvöld, en Tómas Birgir Magnússon er fulltrúi Nýja óháða listans í sveitarstjórn. „Ef vel gengur þá er það stefnan að klára viðræður um samstarf fljótt og vel,“ segir Anton Kári.

Anton Kári segir Sjálfstæðismenn leggja upp með það í viðræðum að hann verði nýr sveitarstjóri í meirihlutasamstarfi. Anton Kári var sveitarstjóri Rangárþings eystra fyrri tvö ár kjörtímabilsins en á miðju tímabili tók Lilja Einarsdóttir, leiðtogi Framsóknar í sveitarfélaginu, við embættinu.

Á vef Rangárþings eystra kemur fram að kjörsókn hafi verið um 75 prósent og voru úrslitin á þessa leið:

  • D-listi Sjálfstæðisflokksins og annara lýðræðissinna: 42,4% og 3 menn kjörnir
  • B-listi Framsóknarflokksins og annara framfarasinna: 36,3% og 3 menn kjörnir
  • N-listi Nýja óháða listans: 21,3% og 1 maður kjörinn

Sveitarstjórn Rangárþings eystra 2022-2026 er því skipuð:

  • Anton Kári Halldórsson - D
  • Árný Hrund Svavarsdóttir - D
  • Sigríður Karólína Viðarsdóttir - D
  • Lilja Einarsdóttir - B
  • Rafn Bergsson - B
  • Bjarki Oddsson - B
  • Tómas Birgir Magnússon - N

Hvolsvöllur er stærsti þéttbýliskjarninn í Rangárþingi eystra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×