Enski boltinn

Sætur eða súr sunnudagur?: Reiknuðu út líkur liðanna í lokaumferðinni í enska

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manchester City og Liverpool berjast um enska meistaratitiilinn og úrslitin ráðast um helgina.
Manchester City og Liverpool berjast um enska meistaratitiilinn og úrslitin ráðast um helgina. Getty/Chris Brunskill

Hverjar eru líkurnar á góðum sunnudegi fyrir Manchester City, Liverpool, Everton, Arsenal og Spurs? Þetta hafa tölfræðingar nú reiknað út og svarað.

Það er mikil spenna fyrir lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn enda ekki enn ljóst hvaða lið verður enskur meistari, hvað verður síðasta liðið til að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni og hvaða verði þriðja liðið sem fellur úr deildinni.

Tölfræðisíðan FiveThirtyEight hefur nú reiknað út allar líkur á því hvaða sætum liðin tuttugu í deildinni enda í eftir þessa æsispenanndi lokaumferð.

Það sem er ljóst er að annað hvort Manchester City eða Liverpool verður enskur meistari, annað hvort Tottenham eða Arsenal kemst í Meistaradeildina, annað hvort Manchester United eða West Ham enda í sjötta sætinu og lið Everton, Leeds United og Burnley berjast fyrir sæti sínu í ensku deildinni.

Það eiga reyndar sex lið eftir tvo leiki því í kvöld fara fram þrír leikir. Everton mætir þá Crystal Palace, Aston Villa spilar við Burnley og Chelsea mætir Leicester City. Úrslitin þar geta auðvitað breytt málum og þá sérstaklega fyrir lið eins og Everton og Burnley í fallbaráttunni.

Það eru 82 prósent líkur á því að Manchester City verði enskur meistari en því aðeins 18 prósent líkur á sigri Liverpool. Bæði lið eiga heimaleik, City á móti Aston Villa en Liverpool á móti Wolves. Liverpool þarf að treysta á að City tapi stigum og um leið að vinna sinn leik. City liðinu nægir því sigur til að tryggja sér enska meistaratitilinn annað árið í röð.

Tottenham er með 92 prósent líkur á að ná síðasta Meistaradeildarsætinu en það eru jafnmiklar líkur (4 prósent) á því að liðið taki þriðja sætinu af Chelsea eins og að liðið missi fjórða sætið til Arsenal.

Manchester United er með 79 prósent líkur á að taka sjötta sætið en West Ham hefur þar með 21 prósent líkur á að taka það af Cristiano Ronaldo og félögum.

Þegar kemur að fallsætunum þá eru mestar líkur á því að Leeds United falli eða 60 prósent. Það eru 31 prósent líkur á því að Burnley falli og aðeins 9 prósent líkur á því að Everton falli.

Hér má sjá meira af þessari samantekt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×