Menning

„Höfðum feimið fólk í huga þegar við vorum að semja sýninguna“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir, Eygló Höskuldsdóttir Viborg og Laufey Haraldsdóttir standa að sýningunni Sjáið mig.
Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir, Eygló Höskuldsdóttir Viborg og Laufey Haraldsdóttir standa að sýningunni Sjáið mig. Leifur Wilberg

Fimmtudaginn 26. maí frumsýnir leikhópurinn Slembilukka leiksýninguna „Sjáið mig“ í Miðbæjarskólanum. Höfundarnir eru þær Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir og Laufey Haraldsdóttir en Eygló Höskuldsdóttir Viborg er tónskáld sýningarinnar ásamt því að koma fram í verkinu. Blaðamaður tók á þeim púlsinn og fékk að heyra nánar frá sýningunni.

Sýningin er óhefðbundin í sniði, en hún etur saman leikhúsi, keppnisíþróttum og borðspilum. Áhorfendur keppast svo um að skara fram úr á hinum ýmsu sviðum lífsins. 

Bryndís Ósk, Laufey og Eygló hafa komið víða að og tekið að sér fjölbreytt verkefni. Bryndís var meðal annars tilnefnd til Grímuverðlauna fyrir búninga í óperunni Ekkert er sorglegra en manneskjan og Laufey var ráðin sem spurningahöfundur og dómari í Gettu betur. Eygló samdi til dæmis útvarpsleikrit fyrir Rás 1 fyrr á árinu sem heitir Fjöldasamkoman á Gjögri og er með meistaragráðu í concert composition frá New York University.

Bryndís Ósk Þ. IngvarsdóttirLeifur Wilberg

Loddaralíðan og svikara heilkenni

Þær fengu einnig inni í Borgarleikhúsinu til að gera sýninguna Á vísum stað. Þetta er því sérstök staða sem þær eru í - að búa til sýningu um vantrú á sjálfum eftir mikinn árangur undanfarið leikár. Í verkinu velta þær upp spurningum á borð við „Getur verið að við, og fólk yfirleitt, sé hreinlega ekki fært um að mæla eigin velgengni eða virði?“

„Við sóttum innblástur í hið svokallaða svikara heilkenni (e. impostor syndrome) sem hefur líka verið þýtt sem loddaralíðan,“ segja þær og bæta við: 

„Við fengum innblástur vegna þess að okkur leið eins og við værum stanslaust að keppa við jafningja okkar. Okkur datt í hug að svikara heilkennið hefði kannski eitthvað með það að gera og langaði að rannsaka það nánar.“

Sýningin hefur verið ansi lengi í bígerð og hefur ýmislegt komið upp á.

„Við skrifuðum tillöguna að sýningunni fyrst árið 2020 en hún hefur þurft að bíða, bæði vegna Covid og vegna þess að við vorum uppteknar í öðrum verkefnum bæði saman og í sitt hvoru lagi. Leikhópurinn setti upp sýninguna Á vísum stað í Borgarleikhúsinu í vetur og Sjáið mig þurfti að bíða á meðan.“

Laufey Haraldsdóttir.Leifur Wilberg

Erfitt að mæla velgengni

Undanfarin misseri hafa þær kynnt sér mikið um hina fyrrnefndu loddaralíðan.

„Samkvæmt rannsóknum er loddaralíðan eitthvað sem um 70% mannkyns upplifir á einhverjum tímapunkti. Það gæti vel verið að hlutfallið sé hærra hjá listamönnum því það er erfiðara að mæla velgengni á því sviði. 

Við höldum að loddaralíðan stafi að stórum hluta til af samanburði við aðra, það er auðvitað svo auðvelt að vera stanslaust að bera sig saman við annað fólk á þessari samfélagsmiðla öld.“
Eygló Höskuldsdóttir Viborg.Leifur Wilberg

Forvitni og þátttaka gesta

Lifuð reynsla þeirra og upplifun kveikti á forvitni, sem þær segjast gjarnan reyna að svala.

„Forvitni er það sem veitir okkur innblástur. Við viljum gera sýningar um það sem við erum forvitnar að vita meira um.“

Sýningin verður frumsýnd 26. maí næstkomandi og verða einnig 28. maí og 1. Júní. Sýningarnar eru tvær á kvöldi, klukkan 17:30 og 20:00.

„Þetta er þátttökusýning, sem þýðir að áhorfendur þurfa að taka þátt. 

Við vitum að sumir eru smeykir við það en fólk þarf ekkert að vera hrætt við okkur. Við höfðum feimið fólk í huga þegar við vorum að semja sýninguna,“ 

segja Bryndís, Eygló og Laufey að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×