Enski boltinn

Enska úr­vals­deildin hefur á­hyggjur af hegðun á­horf­enda

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það brutust út mikil fagnaðarlæti í Guttagarði þegar Everton tryggði veru sína í ensku úrvalsdeildinni.
Það brutust út mikil fagnaðarlæti í Guttagarði þegar Everton tryggði veru sína í ensku úrvalsdeildinni. Robbie Jay Barratt/Getty Images

Enska úrvalsdeildin hefur gefið frá sér tilkynningu þar sem segir að deildin hafi áhyggjur af hegðun áhorfenda sem mæta á leiki. Talsmaður deildarinnar fordæmir atvikin sem hafa komið upp en segir þó að þau séu framin af litlum minnihlutahóp.

Mikið hefur borið á því að stuðningsfólk enskra knattspyrnuliða sé að vaða inn á völlinn þegar lið þeirra hefur tryggt sæti sitt eða haldið vonum um að komast upp um deild á lífi.

Stuðningsfólk Everton æddi inn á Goodison Park, heimavöll liðsins, eftir dramatískan 3-2 endurkomusigur á Crystal Palace. Í umspili ensku B-deildarinnar gerðist það að Billy Sharp, fyrirliði Sheffield United, var skallaður af stuðningsmanni Nottingham Forest.

Þetta helst allt í hendur við aukin afbrot og vandamál á leikjum Englands á þessari leiktíð. Til að mynda er talið að kókaín notkun á fótboltaleikjum Bretlandseyja hafi aldrei verið meiri.

„Öryggi allra þeirra sem fara á völlinn á leikdegi er okkar helsta forgangsatriði. Fyrir lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudag höfum við sent félögum deildarinnar regluverk sem snýr að því hvað gera skal ef áhorfendur æða inn á völlinn,“ segir talsmaður deildarinnar.

„Enska úrvalsdeildin hefur áhyggjur af hegðun áhorfenda á leikvöllum deildarinnar en veit þó að aðeins er um lítinn minnihlutahóp að ræða. Meirihluti áhorfenda sem mætir á völlinn styður lið sitt á virðingarverðan hátt.“

„Enska úrvalsdeildin hefur hvatt félög til að minna stuðningsfólk sitt á að það má ekki fara inn á völlinn. Ef það er gert gæti það farið á sakaskrá og verið bannað að mæta á leiki í framtíðinni,“ segir í tilkynningu ensku úrvalsdeildarinnar

Lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar fer fram á sunnudag. Þar kemur í ljós hvort Manchester City eða Liverpool verður Englandsmeistari, hvort Tottenham Hotspur eða Arsenal nái Meistaradeildarsæti og hvort Burnley eða Leeds United falli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×